Tack, Sverige! 🇸🇪🇮🇸 Svíþjóðarför er nú lokið og við snúum heim innblásin og þakklát fyrir þá hlýju og gestrisni sem okkur Íslendingum var sýnd í Stokkhólmi. Bæði okkur hjónum og fulltrúum viðskiptalífs og menningarlífs, sem tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá sem miðaði að því að efla enn frekar sænsk-íslenskt samstarf.
Þar með lýkur jafnframt ríkisheimsóknum okkar til skandinavísku konungsríkjanna þriggja. Við erum djúpt snortin af þeim anda samstöðu og vináttu sem einkennir samskiptin við okkar nánustu granna. Næsta ríkisheimsókn okkar verður svo til Finnlands. Hefðin er sú að forseti Íslands hefji embættistíð sína með því að heimsækja öll Norðurlöndin – til að treysta þau vinabönd sem eru okkur Íslendingum ómetanleg, nú sem aldrei fyrr.
Saga norrænnar samvinnu undanfarna áratugi er samtvinnuð baráttunni fyrir friði og trú á gildi hins mjúka valds. Að deila ábyrgð, miðla þekkingu af mildi – með sögum og samvinnu – er leið sem hefur reynst vel. Norræna módelið gengur upp. Við setjum fordæmi sem vert er að fylgja. Við höfum náð frábærum árangri í velsæld og vermum þar efstu sæti heims. Með því að sameina raddir okkar og krafta enn frekar getum við aukið áhrif Norðurlanda til góðs – á tvísýnum tímum.
Líkt og ég sagði í þakkarræðu minni, Karli XVI. Gústafi konungi og Silvíu drottningu til heiðurs: Við segjum „Kære nordiske venner“ þegar við ávörpum norræna hópa. Töfraorðið „kære“ er trompið okkar. Það er kannski öðru fremur kærleikurinn sem gerir samstarf okkar dýrmætt. Enginn efast um að kærleikurinn er alla daga notalegur en skyldi nú vera runnin upp sú stund að hann er jafnframt lífsnauðsynlegur?"
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 9. maí 2025.