Björn Skúlason

Björn Skúlason er fæddur í Reykjavík 20. júlí árið 1973, sonur Esterar Guðlaugar Karlsdóttur og Skúla Magnússonar.

Björn ólst upp í Grindavík og vann lengstum við fiskvinnslu á uppvaxtarárunum.
Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og stundaði íþróttir frá unga aldri og lék meðal annars knattspyrnu með Grindavík og KR í meistaraflokki.

Á árunum 1993-1996 nam Björn viðskiptafræði við Auburn háskólann í Montgomery Alabama og lék þar með knattspyrnuliði skólans. Árið 2004 útskrifaðist hann svo með meistaragráðu í stjórnunarsálfræði frá University of Essex á Englandi. Árið 2012 stundaði hann matreiðslunám við Natural Gourmet Institute í New York.

Björn hefur starfað hjá Tryggingamiðstöðinni og í eignastýringu hjá Íslandsbanka og Auði Capital. Hann var framkvæmdastjóri Nóatúns, rak eigin veisluþjónustu í Kaupmannahöfn og bjó til og kenndi matreiðslunámskeið sem hétu Karlar sem kokka. Í dag rekur hann fyrirtækið just björn sem framleiðir og markaðssetur í Bandaríkjunum náttúruleg fæðubótarefni, unnin úr fiskafurðum frá Norðurlöndum.

Björn og Halla Tómasdóttir eiga tvö börn, Tómas Bjart og Auði Ínu.

Björn er verndari Alzheimersamtakanna og Eyrarrósarinnar.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar