Heiðursmerki Rauða kross Íslands

Mynd

Frá árinu 1949 hefur forseti Íslands veitt Heiðursmerki Rauða kross Íslands en það fá þeir Íslendingar og erlendir ríkisborgarar er þess þykja verðir af störfum sínum að mannúðarmálum.

Það var Þorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali, þáverandi formaður Rauða kross Íslands, sem var frumkvöðull þess að efnt var til heiðursmerkisins. Sveinn Björnsson forseti hafði einnig áhuga á því en hann átti þátt í stofnun Rauða kross Íslands árið 1924 og var formaður félagsins fyrsta starfsárið. Stefán Jónsson teiknari og arkitekt í Reykjavík teiknaði merkið en Kjartan Ásmundsson gullsmiður og orðusmiður annaðist smíði þess.


Heiðursmerkið er í tveimur stigum. Fyrra stig er hvítsteindur kross, gullbryddur. Annað stig er eins og hitt nema fimmtungi minna og silfur í stað gulls.

Forseti Íslands skipar þrjá menn í nefnd sem gerir tillögur um veitingu heiðursmerkisins. Einn skal skipa eftir tillögu forsætisráðherra, annar er formaður Rauða kross Íslands en hinn þriðji formaður hinnar íslensku fálkaorðu. Forseti skipar einhvern þeirra formann nefndarinnar samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Veiting heiðursmerkja skal að jafnaði fara fram á stofndegi Rauða kross Íslands, 10. desember. Birta skal í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum hverjir heiðursmerkið hljóta.

Rauði kross Íslands ber allan kostnað af heiðursmerkinu. Við andlát þess er heiðursmerkið hefur hlotið ber erfingjum hans að skila formanni nefndarinnar merkinu aftur.

 

H E I Ð U R S M E R K I Rauða kross Íslands (forsetabréf nr. 7/1949)

FORSETI ÍSLANDS gjörir kunnugt:

Stjórnendur Rauða kross Íslands hafa farið þess á leit að gert verði heiðursmerki sem sæma megi íslenska menn og erlenda er inna af höndum mannúðarstörf sem mikils þykir um vert. Að ráði forsætisráðherra fellst ég á að efnt verði til slíks heiðursmerkis og skulu um það gilda eftirfarandi reglur:

1. gr. Heiðursmerkið er í tveimur stigum. Fyrra stigið er hvítsteindur kross, gullbryddur. Armar krossins eru breiðastir yst og tjúgumyndaðir. Á framhlið krossmarksins er blár hringur og á hann mörkuð gullnu letri kjörorð Rauða kross Íslands: CITATE SANITATE. Milli arma krossmarksins, utan bláa hringsins, eru felldir mislangir geislar úr gulli. Innan bláa hringsins er hvítur flötur og á hann dregið hið alþjóðlega merki Rauða krossins. Bakhlið merkisins er það eitt frábrugðið að áletrunin er þar: BENEFACTORIBUS RKÍ. Heiðursmerki fyrra stigs er 4,5 sentimetrar að þvermáli. Annað stig heiðursmerkisins er eins og hitt nema fimmtungi minna og silfur í stað gulls. Heiðursmerki fyrra stigs skal bera um hálsinn í silkibandi með fánalitum Íslands, þannig að rautt sé í miðju, hvítt til hvorrar hliðar en blátt yst. Bláu rendurnar skulu hvor um sig jafnbreiðar báðum hinum. Heiðursmerki annars stigs skal borið á brjóstinu vinstra megin í litbandi sömu gerðar. Eigi má bera litbandið eitt í neinskonar formi sem orðumerki.

2. gr. Heiðursmerki þessu má sæma íslenska menn og erlenda er þess þykja verðir af störfum sínum að mannúðarmálum.

3. gr. Forseti Íslands veitir heiðursmerkið.

4. gr. Forseti Íslands skipar þrjá menn í nefnd er geri tillögur um veitingu heiðursmerkisins. Einn skal skipa eftir tillögu forsætisráðherra og sé hann félagi Rauða kross Íslands, annar sé formaður Rauða kross Íslands en hinn þriðji formaður hinnar íslensku fálkaorðu. Forseti skipar einhvern þeirra formann nefndarinnar samkvæmt tillögu forsætisráðherra.

5. gr. Engan má sæma heiðursmerkinu nema nefndarmenn allir séu því samþykkir og sérstök ástæða þyki til. Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða skal leita umsagnar utanríkisráðherra Íslands áður en ákvörðun er tekin um veitingu heiðursmerkisins.

6. gr. Eigi má veita fleiri heiðursmerki árlega en fimm, þó aldrei nema eitt fyrra stigs. Sá er hlýtur æðra stig merkisins skal skila hinu aftur hafi hann verið sæmdur því. Veiting heiðursmerkja skal að jafnaði fara fram á stofndegi Rauða kross Íslands, 10. desember. Birta skal í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum hverjir heiðursmerkið hljóta.

7. gr. Rauði kross Íslands ber allan kostnað af heiðursmerki þessu.

8. gr. Við andlát þess er heiðursmerkið hefur hlotið ber erfingjum hans að skila formanni nefndarinnar merkinu aftur.

Gjört að Bessastöðum, 24. febrúar 1949

SVEINN BJÖRNSSON (L.S.)

Stefán Jóh. Stefánsson

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar