American-Scandinavian Foundation

American-Scandinavian Foundation, ASF, var stofnað árið 1910 af dansk-bandaríska iðnjöfrinum Niels Poulsen og er félagið rekið með víðtækum stuðningi ríkisstjórna Norðurlandanna, fyrirtækja og einstaklinga.

Hlutverk American-Scandinavian Foundation er að efla og treysta samskipti Bandaríkjanna og Norðurlandanna fimm í mennta- og menningarmálum. Tugir þúsunda ungra Norðurlandabúa og Bandaríkjamanna hafa notið góðs af fyrirgreiðslu American-Scandinavian Foundation við nám, rannsóknir og ýmsa þjálfun.

Íslensk-ameríska félagið, sem stofnað var 1940, er systurfélag American-Scandinavian Foundation. Frá árinu 1965 hefur félagið árlega veitt styrki til námsmanna sem hyggja á framhaldsnám í Bandaríkjunum. Thor Thors-sjóðurinn hefur gert félaginu mögulegt að úthluta þessum styrkjum en hann er nefndur eftir Thor Thors sem var fyrsti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Félagið úthlutar einnig svokölluðum Haystack-styrkjum til listamanna er vilja sækja sumarnámskeið við Haystack Mountain School of Arts í Maine-fylki í Bandaríkjunum.

Að undangenginni fjársöfnun, sem myndarlega var studd af Íslands hálfu, réðst ASF árið 1998 í byggingu Scandinavian House við 56-58 Park Avenue á Manhattan í New York. Þessi glæsilega bygging var vígð við hátíðlega athöfn árið 2000 að viðstöddum forseta Íslands og fulltrúum annarra norrænna þjóðhöfðingja. Í henni má m.a. finna samkomusal, sýningaraðstöðu, funda- og móttökusvæði, lestrarstofu og lítið bókasafn helgað Halldóri Laxness, veitingaaðstöðu auk skrifstofu American-Scandinavian Foundation.

Þjóðhöfðingjar Norðurlanda eru verndarar American-Scandinavian Foundation.

Vefsvæði ASF.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar