Forseti efnir til umræðufundar á Bessastöðum með ýmsum aðilum sem láta sig málefni ungs fólks varða. Rætt var um andlega líðan ungmenna í samfélagi nútímans og mögulegar leiðir til að ráðast að rót vandans og hafa áhrif til góðs í þeim málaflokki. Sett var fram sú tillaga að hvetja almenning til að gerast „riddarar kærleikans" og bregðast þannig við ákalli aðstandenda Bryndísar Klöru Birgisdóttur um að heiðra minningu hennar með því að gera kærleikann að eina vopninu í íslensku samfélagi.
Bryndís Klara lét lífið í kjölfar hnífaárásar á Menningarnótt í Reykjavík. Stofnaður hefur verið minningarsjóður í nafni hennar og er forseti verndari sjóðsins. Markmiðið er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
Forseti hefur kallað eftir því að þjóðin sameinist í átaki um að ráðast saman að rótum vandans. „Hvert og eitt okkar hefur þar hlutverk. Ég hef átt fjölda funda og samtala undanfarnar vikur um nauðsynlegar úrbætur í kerfinu - og þær eru sem betur fer margar á borðinu! En kerfisbreytingar duga ekki til - við þurfum að vinna saman að því að gera kærleikann að eina vopninu í okkar samfélagi," sagði forseti í ákalli sem birt var á facebook.