Forseti tók fyrr í þessum mánuði á móti um 20 börnum sem eru þátttakendur í verkefninu Táknmálseyjan. Við það tækifæri frumfluttu börnin táknmálsþýðingu lagsins „Riddari kærleikans“. Í þessari viku var síðan frumsýnt opinberlega nýtt myndband þar sem hópurinn flytur þýðinguna.
Táknmálseyjan er málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á grunnskólaaldri. Flest börnin eru með annað táknmál að móðurmáli en íslenskt táknmál en eru að læra það. Fyrr á árinu veitti Barnamenningarsjóður Íslands Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) og List fyrir alla styrk til að vinna með börnunum að myndbandi tengdu laginu „Riddari kærleikans“, eftir Dagmar Helgu Helgadóttur, Valgerði Rakel Rúnarsdóttur og GDRN. Eyrún Helga Aradóttir, sviðsstjóri táknmálssviðs SHH, hefur umsjón með hópnum en Kolbrún Völkudóttir þýddi textann og sá um listræna útfærslu. Guðmundur Atli Pétursson annaðist kvikmyndatöku og klippingu myndbandsins.
Forseti Íslands hefur á liðnum misserum stutt við bakið á hreyfingunni Riddarar kærleikans en hún er leidd af ungu fólki sem vill vinna gegn vaxandi vanlíðan og ofbeldi með kærleika. Því þótti vel við hæfi að frumflutningur á táknmálsútgáfu lagsins „Riddari kærleikans“ færi fram á Bessastöðum. Í samtali forseta við aðstandendur Táknmálseyjunnar kom fram að verkefnið hefði í senn fræðslugildi og listrænt gildi en eitt af markmiðum þess er að stuðla að fjölbreyttari þátttöku barnanna í samfélaginu.