• Forseti ásamt þátttakendum í Táknmálseyjunni og aðstandendum. Ljósmynd: EFÍ.
Fréttir | 13. nóv. 2025

Táknmálsútgáfa af „Riddari kærleikans“

Forseti tók fyrr í þessum mánuði á móti um 20 börnum sem eru þátttakendur í verkefninu Táknmálseyja á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH). Við það tækifæri frumfluttu börnin táknmálsþýðingu lagsins „Riddari kærleikans“ og fimmtudaginn 13. nóvember var myndbandið svo birt.

Táknmálseyjan er markvisst málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á grunnskólaaldri sem SHH annast. Flest börnin eru með annað táknmál að móðurmáli en íslenskt táknmál (ÍTM) en eru að læra ÍTM. Fyrr á árinu veitti Barnamenningarsjóður Íslands SHH styrk til að vinna með börnunum í Táknmálseyju að myndbandi tengdu laginu „Riddari kærleikans“, eftir Dagmar Helgu Helgadóttur og Valgerði Rakel Rúnarsdóttur í flutningi GDRN. Eyrún Helga Aradóttir sviðsstjóri táknmálssviðs SHH og Uldis Ozols kennari í Táknmálseyju höfðu umsjón með vinnunni en Kolbrún Völkudóttir þýddi textann og sá um listræna útfærslu. Verkefnið var unnið í samstarfi við List fyrir alla.

 

Forseti Íslands hefur á liðnum misserum stutt við bakið á hreyfingunni Riddarar kærleikans en hún er leidd af ungu fólki sem vill vinna gegn vaxandi vanlíðan og ofbeldi með kærleika. Því þótti vel við hæfi að frumflutningur á táknmálsútgáfu lagsins „Riddari kærleikans“ færi fram á Bessastöðum. Í samtali forseta við aðstandendur Táknmálseyju kom fram að verkefnið hefði í senn fræðslugildi og listrænt gildi en eitt af markmiðum þess er að stuðla að fjölbreyttari þátttöku barnanna í samfélaginu.

 

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar