• Forseti ásamt hluta gesta á minningarstund um fórnarlömb umferðarslysa. Ljósmynd: EFI.
Fréttir | 16. nóv. 2025

Sérhvert slys einu slysi of mikið

Forseti tók þátt í alþjóðlegum minningardegi um þau sem látist hafa í umferðinni. Að þessu sinni var kastljósi beint að gildi bílbelta en kannanir hafa leitt í ljós bakslag í notkun þeirra hérlendis.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað fórnarlömbum umferðarslysa þriðja sunnudag í nóvember og eru viðburðir haldnir um allan heim af því tilefni. Á Íslandi fóru táknrænar minningarstundir fram víða um land. Forseti og innviðaráðherra, Eyjólfur Ármansson, fluttu að þessu sinni ávörp á árvissri athöfn við þyrlupallinn hjá Landspítalanum í Fossvogi.

Í máli sínu sagði forseti að forvarnarstarf væri í eðli sínu stöðug og þrotlaus vegferð. Hún rifjaði upp að þegar reglugerðir og lög um bílbeltanotkun voru samþykkt hérlendis, um og eftir 1980, hefðu ýmsir málsmetandi aðilar barist gegn þeim. Beltin hefðu hins vegar sannað gildi sitt á liðnum áratugum. Forseti sagði ennfremur:

„Sérhvert slys sem hægt er að koma í veg fyrir – með aðgát, fyrirhyggju, já oft bara einu handtaki – er einu slysi of mikið. Á liðnu ári urðu þrettán banaslys í umferðinni á Íslandi sem er meira en helmingi meira en meðaltal næstu fimm ára á undan. Fórnarlömb þessara slysa eru margfalt fleiri, þar með talið ættingjar og vinir sem syrgja. Sum þeirra bera aldrei sitt barr að nýju. Við megum heldur ekki gleyma því hve þungbært það getur verið fyrir viðbragðsaðila að sinna sínum skyldum þegar um alvarleg umferðarslys er að ræða. Mig langar til að nota þetta tækifæri og þakka þeim stóra hópi fyrir ómetanleg störf fyrr og nú og það æðruleysi sem þau sýna jafnan við erfiðar aðstæður.“

Ávarp forseta er aðgengilegt á vef embættisins.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar