• Ljósmynd/Skrifstofa forseta Íslands
Fréttir | 10. nóv. 2021

Íslensku menntaverðlaunin

Forseti afhendir Íslensku menntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Markmið verðlaunanna er sem fyrr að vekja athygli á og hefja til vegs í samfélaginu það metnaðarfulla og vandaða starf sem unnið er með börnum og ungmennum á öllum skólastigum. Verðlaunaathöfninni var sjónvarpað af RÚV og má sjá útsendinguna hér.

Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum, auk hvatningarverðlauna:

Verðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur hlýtur leikskólinn Aðalþing fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti.

Verðlaun sem framúrskarandi kennari hlýtur Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla, fyrir framúrskarandi kennslu nemenda með fötlun, meðal annars fyrir að þróa nýjar leiðir til tjáskipta.

Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni hlýtur Nanna Kr. Christiansen og skóla- og frístundasvið Reykjavíkur fyrir þróunarverkefnið Leiðsagnarnám. Verkefnið snýr að eflingu námsmenningar sem stuðlar að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi.

Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna hljóta að þessu sinni Vilhjálmur Magnússon og Vöruhúsið – miðstöð skapandi greina á Hornafirði, sem er einstakur vettvangur til kennslu í nýsköpun og list- og verkgreinum á öllum skólastigum. Þar er boðið upp á formlegt og óformlegt nám í handverki, hönnun og hugmyndavinnu þar sem lögð er áhersla á þverfaglega samvinnu.

Sjá nánar í fréttatilkynningu.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar