Fréttapistill | 06. mars 2023

Söngvakeppnin og fleira

Mikið var gaman á Söngvakeppni Ríkisútvarpsins um helgina! Ég óska Diljá hjartanlega til hamingju með sigurinn og öllum hinum sem tóku þátt í keppninni og stóðu sig með prýði.

Við hjónin nutum fleiri skemmtilegra listviðburða í vikunni. Á fimmtudaginn sá ég frumsýningu leikhóps Menntaskólans á Laugarvatni á Sódómu Reykjavík og skemmti mér vel. Eliza var síðan við frumsýningu á glæsilegu nýju leikverki, Draumaþjófnum, í Þjóðleikhúsinu um helgina. Síðdegis í gær skemmti ég mér á sýningu Halaleikhópsins í Sjálfsbjargarhúsinu á gamanleiknum Obbosí, eldgos! Þar var svo sannarlega líf og fjör. Að sýningu lokinni biðu í síma mínum fjölmörg skilaboð frá þeim vinum mínum sem styðja Liverpool í enska boltanum. Ég þakka þá hugulsemi að færa mér fregnir af úrslitum leiks liðsins í gær.

Nýliðin vika hófst annars með því að Íslensku lýðheilsuverðlaununum var ýtt úr vör en þau verða afhent í fyrsta sinn í apríl. Nú þegar hafa hátt í 150 tillögur borist og hvet ég fólk til að benda á fleiri sem eiga viðurkenningu skilið fyrir mikilsvert lýðheilsustarf. Opið er fyrir tillögur til 20. mars á síðunni www.lydheilsuverdlaun.is.

Nokkur fróðleg málþing sótti ég í vikunni. Fyrst var samkoma á vegum Einstakra barna á alþjóðlegum degi sjaldgæfra sjúkdóma þann 28. febrúar. Einnig sótti ég alþjóðlegt málþing um heila, nám og færni í lestri og öðrum námsgreinum. Viðburðurinn var haldinn í Grósku í Reykjavík á vegum Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands í samvinnu við Samtök atvinnulífsins. Tveir fræðimenn, sem getið hafa sér gott orð í þessum efnum á alþjóðavettvangi, fluttu erindi á þinginu, þau Ghislaine Dehaene-Lambertz og Stanislas Dehaene. Í máli mínu minnti ég á allt það góða starf sem unnið er í skólum landsins en nefndi jafnframt mikilvægi þess að ferskir straumar í rannsóknum og fræðum finni sér farveg þar. Á laugardaginn var sat ég síðan málþing Alþjóðlegrar frímúrarareglu karla og kvenna og flutti þar erindi um efni þingsins, samkennd, samvisku og samfélag. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

  • Ljósmynd/Mummi Lú
  • Halaleikhópurinn
  • Með nemendum Menntaskólans á Laugarvatni.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar