Fréttapistill | 04. júní 2024

Annasöm kosningavika

Í síðustu viku bar auðvitað hæst kjör nýs forseta. Við Eliza héldum í höfuðstöðvar RÚV á kosningakvöldi og ræddum þar um ár okkar á Bessastöðum. Daginn eftir sendum við Höllu Tómasdóttur og öllu hennar fólki heillaóskir. Ég þakka öllum sem buðu sig fram til forseta, sjálfboðaliðum í kosningaliði þeirra og þeim sem sáu um að kjörið færi vel og heiðarlega fram. Við megum fagna því, við Íslendingar, að búa í lýðræðisríki þar sem öllum er frjálst að leitast eftir því að gegna embætti þjóðhöfðingja og eiga örlög sín svo undir ákvörðun okkar kjósenda.

Vinnuvikan hófst annars með því að við hjónin tókum á móti Patti Hill, alþjóðaforseta Lionshreyfingarinnar, ásamt föruneyti hennar. Ræddum við mikilsvert framlag Lionsliða til góðgerðarmála og vísindarannsókna að fornu og nýju. Þriðjudaginn 28. maí tók ég svo á móti fimm nýjum sendiherrum með aðsetur erlendis. Eru þeir fulltrúar Angóla, Malaví, Máritaníu, Ómans og Sambíu gagnvart Íslandi. Fróðlegt var að vanda að ræða við nýja sendiherra um leiðir til að efla tengsl okkar við ríki þeirra. Síðar þennan dag komu liðsmenn þungarokkssveitarinnar Drungi svo á Bessastaði og afhentu mér nýja plötu sína, Hamfarir hugans. Við það tækifæri var rætt um þessa tegund tónlistar og sess hennar í samfélaginu.

Daginn eftir flutti ég opnunarávarp á alþjóðlegu jarðvarmaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference sem nú var haldin í fimmta sinn hér á landi. Gaman er að geta þess að í tveimur opinberum heimsóknum nýverið, fyrst til Slóvakíu og svo Georgíu, hefur verið rætt um aukið samstarf Íslendinga við heimamenn á sviði jarðvarmanýtingar. Í þeim efnum er mikla sérfræðiþekkingu að finna hér á landi. Síðar um daginn lá leið mín í bækistöðvar MS-félagsins í Fossvogi í Reykjavík. Þar hélt ég ávarp í tilefni af alþjóðadegi MS, þess skæða sjúkdóms, naut góðra veitinga og enn betri félagsskapar. Að kvöldi sat ég svo Grímuna, verðlaunahátíð sviðslistafólks. Mér þótti afar vænt um að fá þá að afhenda Margréti Helgu Jóhannsdóttur heiðursviðurkenningu fyrir æviframlag hennar á því sviði.

Á fimmtudaginn var buðum við Eliza sendiherrum erlendra ríkja á Íslandi til hádegisverðar. Ræddi ég þar nokkuð opinskátt um mína forsetatíð og vonast til að geta lesið skýrslur um það í fyllingu tímans, rétt eins og ég hef kynnt mér á erlendum skjalasöfnum afar fróðlegar lýsingar sendiherra á samtölum við íslenska ráðamenn fyrr á tíð. Síðdegis átti ég svo fund með Ragnhildi Helgadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík og sérfræðingi í stjórnskipun lýðveldisins. Um margt má ræða á þeim vettvangi. Að því loknu var svo móttaka fyrir karlalið Vals í handbolta, nýkrýnda Evrópumeistara, og óskaði ég þeim til hamingju með þann frábæra árangur.

Föstudaginn 31. maí hélt ég með safnskipinu Óðni frá Reykjavík út fyrir Garðskaga og til baka. Sjóveiki gerði vart við sig en sem betur fer varð maður stálsleginn eftir dálitlar uppsölur. Á hafi úti var blómsveig varpað í öldurnar og rós til minningar um alla þá sem hlutu vota gröf á þessum slóðum og nærri þeim með skipunum Hermóði 18. febrúar 1959, Rafnkeli GK 510 4. janúar 1960, Stuðlabergi NS 102 17. eða 18. febrúar 1962, Þorbirni RE 36 25. ágúst 1965 og Sveini Guðmundssyni GK 315 10. september 1992. Séra Sigurður Kr. Sigurðsson fór með bæn og við Vilbergur Magni Óskarsson skipherra fluttum minningarorð. Gamlir liðsmenn Landhelgisgæslunnar halda Óðni við, þessu fornfræga björgunar- og varðskipi okkar Íslendinga, og eiga heiður skilinn fyrir þann mikla atbeina.

Kjördagur var viðburðaríkur. Þá var staddur hér á landi hópur sjósundskvenna frá Færeyjum í boði Glaðari þú, félagsskapar kvenna sem stunda sjósund sér til heilsubótar og gleði. Að morgni dags skelltum við okkur öll til sunds í Helguvík hér á Álftanesi og síðan var valkyrjunum boðið til móttöku á Bessastöðum. Um hádegisbil flutti ég svo hátíðarávarp á afmælisfagnaði Móðurmáls – samtaka um tvítyngi, í Mjóddinni í Reykjavík. Samtökin eiga nú 30 ára afmæli og í máli mínu rakti ég hvernig íslenskt samfélag hefur gerbreyst undanfarna áratugi og hversu brýnt það er að gefa fólki sem hingað flyst kost á að læra íslensku. Einnig nefndi ég að um leið væri mikilvægt að fólk gæti haldið við því máli eða málum sem það lærði í æsku enda sé löngu staðfest að kunni fólk vel sitt móðurmál eigið það mun auðveldara en ella með að nema aðrar tungur. Loks sé það auðvitað svo að margt fólk eigi tvö tungumál að móðurmáli, og jafnvel fleiri.

Síðdegis flutti ég svo ávarp og afhenti viðurkenningar á lokahátíð Nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík. Ég hvatti ungmennin til dáða, fagnaði frumkvæði þeirra og dugnaði og kvaðst telja víst að kynslóð þeirra muni takast enn betur en okkur hinum eldri að efla okkar ágæta samfélag.

Að þessum embættisverkum loknum héldum við hjónin á kjörstað á Álftanesi og greiddum atkvæði í forsetakosningunum. Að kvöldi naut ég svo opnunartónleika Listahátíðar í Hörpu þar sem hin norska Lise Davidsen söng af stöku listfengi.

Á sunnudag sótti ég hátíðardagskrá sjómannadagsins. Dagurinn hófst með hátíðlegri athöfn við Minningaröldur í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík og síðan flutti ég hugvekju í sjómannadagsmessu Grindvíkinga sem fram fór í Vídalínskirkju í Garðabæ. Síðdegis sótti ég hátíðarathöfn sjómannadagsráðs í Hörpu þar sem sjómenn voru heiðraðir. Þar var ég sæmdur heiðursmerki sjómannadagsins og þykir vænt um þann heiður.

Frekari fregnir og myndir má finna á vefsíðu embættisins, forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 4. júní 2024.

 • Fyrstu tölur ræddar við Sigríði Hagalín og Birtu Björnsdóttur í kosningasjónvarpi RÚV á miðnætti kjördags.
 • Atkvæði greidd í Álftanesskóla á kjördag, 1. júní 2024. Ljósmynd: Ragnar Visage.
 • Sigling með safnskipinu Óðni frá Reykjavík út fyrir Garðskaga og til baka, föstudaginn 31. maí. Á hafi úti var blómsveig varpað í öldurnar og rós til minningar um alla þá sem hlutu vota gröf á þessum slóðum.
 • Hádegisverðarboð á Bessastöðum fyrir sendiherra erlendra ríkja á Íslandi.
 • Liðsmenn þungarokkssveitarinnar Drungi þáðu kaffi á Bessastöðum og afhentu um leið nýja plötu sína, Hamfarir hugans.
 • Opnunarávarp á jarðvarmaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference - IGC.
 • Móttaka fyrir karlalið Vals í handbolta, nýkrýnda Evrópumeistara. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn
 • Með Björgvini Páli Gústavssyni í móttöku á Bessastöðum fyrir karlalið Vals í handbolta, nýkrýnda Evrópumeistara. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn
 • Viðurkenningar afhentar á lokahátíð Nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík.
 • Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, sæmir forseta heiðursmerki á sjómannadaginn. Ljósmynd: Ernir Eyjólfsson.
 • Heiðursathöfn Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins á sjómannadaginn. Ljósmynd: Ernir Eyjólfsson.
 • Sjósund í Helguvík á Álftanesi með hópi færeyskra sjósundskvenna sem eru hér á landi í boði Glaðari þú sjóbaðsleikjanámskeið. Ljósmynd: Sonia Zaucha.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar