• Forseti ásamt meðlimum hljómsveitanna The Vintage Caravan og Sólstafa.
  • Forseti á tónleikum Skálmaldar á Wacken
  • Forseti á tónleikum Sólstafa
  • Forseti ræðir íslensku þungarokkssenuna og norrænan menningararf í pallborði á Wacken Open Air hátíðinni.
  • Forseti nýtur leiðsagnar Pamelu Braun, bæjarstjóra Wacken, á göngu um bæinn.
  • Forseti nemur skylmingar af áhugafólki um víkingaöldina á Wacken þungarokkshátíðinni.
  • Forseti heimsækir tjaldbúðir Íslendinga á Wacken Open Air þungarokkshátíðinni.
Fréttir | 05. ágú. 2023

Wacken

Forseti er heiðursgestur á tónlistarhátíðinni Wacken Open Air í Slésvík-Holtsetalandi í Þýskalandi. Hátíðin er sú stærsta í heimi meðal viðburða þar sem þungarokk er í forgrunni og hefur hún verið haldin frá árinu 1990. 

Myndasafn frá ferð forseta Íslands á Wacken þungarokkshátíðina.

Að þessu sinni spila fjórar íslenskar hljómsveitir á hátíðinni og eru það Skálmöld, Sólstafir, The Vintage Caravan og Krownest. Íslendingar hafa aldrei átt jafnmarga fulltrúa á Wacken Open Air og af því tilefni buðu skipuleggjendur forseta að sækja hátíðina sem heiðursgestur

Hátíðin fór fram dagana 2.-5. ágúst og sótti forseti dagskrá hennar síðustu tvo dagana. Þar fylgdist hann með tónleikum þriggja íslensku hljómsveitanna auk annarra tónlistarmanna, meðal annars ensku hljómsveitarinnar Iron Maiden. Forseti ræddi við liðsmenn íslensku hljómsveitanna baksviðs að loknum tónleikum og heimsótti tjaldbúðir íslensku gestanna, en um 40 manna hópur Íslendinga ferðaðist til Þýskalands vegna hátíðarinnar. Þá hitti forseti Pamelu Braun, bæjarstjóra Wacken og þar með gestgjafa hátíðarinnar, og naut leiðsagnar hennar á göngu um bæinn.

Á lokadegi tónlistarhátíðarinnar tók forseti þátt í pallborðsumræðum ásamt tónleikahöldurum þar sem rætt var um þungarokkssenuna á Íslandi og tengsl hennar við norrænan menningararf. Í máli sínu lagði forseti áherslu á mikilvægi umburðarlyndis og víðsýni, meðal annars með því að forðast fordóma og staðalímyndir um fólk sem hefur áhuga á tiltekinni tegund tónlistar. Þá sagði hann brýnt að verja norrænan sagnaarf fyrir öfgaöflum sem vilja misnota hann í eigin þágu. Í því sambandi þakkaði hann íslenskum þungarokkssveitum fyrir þeirra atbeina við að efla íslenska tungu og nota hana á öllum sviðum mannlífs og menningar.

Pistill forseta um ferðina til Wacken.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar