Fréttir | 16. nóv. 2018

Opinber heimsókn til Lettlands

Opinber heimsókn forseta til Lettlands hófst með formlegri móttökuathöfn fyrir framan forsetahöllina í Riga. Leiknir voru þjóðsöngvar beggja landa og svo gengið til funda í höllinni, fyrst einkafundar forsetanna, svo fundar heimsóknarnefnda beggja landa. Auk íslenskra embættismanna er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í íslensku nefndinni. Á fundinum var vikið að ýmsum þáttum í sögu og samskiptum landanna og viðfangsefnum á alþjóðavettvangi. Þá ávörpuðu forsetarnir fulltrúa fjölmiðla og svöruðu spurningum þeirra.

Þessu næst lagði forseti blómsveig að minnismerki Lettlands um frið í miðborg Riga og var þá haldið í utanríkisráðuneytið þar sem forseti og fylgdarlið hans áttu fund með Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, og embættismönnum ráðuneytisins. Auk þess að fjalla þar um samskipti landanna var þar einnig rætt um umhverfismál, jafnrétti kynjanna og alþjóðastofnanir.

Í hádeginu áttu forseti og föruneyti fund og snæddu hádegisverð með nýkjörnum forseta lettneska þjóðþingsins, Inara Murniece, varaforsetum, fulltrúum stjórnmálaflokka og starfsmönnum þingsins. Að því loknu heimsótti forseti Háskóla Lettlands í höfuðborginni og flutti þar fyrirlestur undir fyrirsögninni "Can Small States Make a Difference? Iceland's Support for Baltic Independence 1990-1991."

Sérstaka myndasyrpu frá heimsókninni má sjá hérMyndskeið frá heimsókn forseta í lettneska þingið er hér (á YouTube).

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar