Fréttir | 02. maí 2019

Heimsókn í Reykjanesbæ

Forseti og forsetafrú hefja opinbera heimsókn sína í Reykjanesbæ. Að morgni tóku Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar, á móti þeim við bæjarmörkin og því næst var haldið í fyrirtækið Skólamat, sem framleiðir máltíðir fyrir skóla á höfuðborgarsvæðinu. Þessu næst var haldið í Gömlu búð, gamalt verslunarhús sem hefur verið gert upp, þar sem sagt var frá þáttum í menningarstarfsemi og safnastarfi bæjarins. Þá tók við setning Listahátíðar barna í Duus húsum þar sem forseti setti Listahátíðina og skoðaði sýningar. Leikskólabörn úr Reykjanesbæ sungu nokkur lög fyrir forsetahjónin og fylgdu þeim á sýningarnar í húsinu, þar á meðal sýningu á verkum sem leikskólabörn hafa unnið úr hlutum sem almennt teljast rusl, svo sem plastpokum, eggjabökkum og öðrum umbúðum. Einnig var skoðuð sýning á verkum nemenda í listnámsbraut framhaldsskólans. Loks var haldið á bókasafnið í Ráðhúsinu þar sem forsetahjón ræddu m.a. við ungbarnaforeldra og við starfsmenn Reykjanesbæjar.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar