Fréttir | 05. sep. 2019

Undirskriftir

Guðmundur Franklín Jónsson viðskipta- og hagfræðingur gekk á fund forseta og afhenti þá áskorun í nafni hans og Hildar Sifjar Thorarensens verkfræðings að forseti synjaði tvennum lögum staðfestingar. Með þeirri áskorun fylgdi minniskubbur með rafrænum undirskriftum þeirra sem lýst höfðu stuðningi við hana.
Lögin, sem um ræðir, eru Raforkulög og Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði), og Raforkulög (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku). Alþingi samþykkti þessi tvenn lög hinn 2. september 2019.
Áskorunin til forseta, sem var birt á á heimasíðunni Synjun.is í ágústbyrjun, var svohljóðandi: „Við undirrituð skorum á þig forseta lýðveldisins Íslands Hr. Guðna Th. Jóhannesson að beita málskotsrétti þínum til þjóðarinnar skv. 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og synja staðfestingar á hverjum þeim lögum samþykktum af Alþingi Íslendinga sem fela í sér afsal á yfirráðum Íslendinga yfir náttúruauðlindum okkar, svo sem orku vatnsaflsvirkjana og jarðhitasvæða, drykkjarvatni og heitu vatni, og afsal á stjórn innviða tengdum þeim til erlendra aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, ríki eða ríkjasambönd, og vísa þannig lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Forseti tók við minniskubbinum og meðfylgjandi blaði með upplýsingum um efni hans, rafrænni undirskrift þeirra sem hafa lýst fylgi við áskorunina. Alls voru það 7.643 manns. Forseti þakkaði þeim sem tóku þátt í undirskriftasöfnuninni og lýstu þannig afstöðu sinni í mikilvægu álitamáli. Forseti átti svo stuttan fund með Guðmundi Franklín Jónssyni.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar