Fréttir | 22. jan. 2020

Sprotafyrirtæki í Ísrael

Forseti heimsækir Hebreska háskólann í Jerúsalem. Þar kynnti hann sér einkum umhverfi sprotafyrirtækja og stuðning skólans við þau. Óvíða í veröldinni eru sprotafyrirtæki fleiri sé miðað við íbúafjölda og framlag þeirra til efnahags Ísraels er veigamikið. Oron Shagir, varaforseti alþjóðasamskiptadeildar og prófessor í heimspeki, bauð forseta velkominn og sagði frá sögu og starfsemi skólans sem var stofnaður fyrir tæpum hundrað árum. Nemendur eru um 23000 talsins. Dr. Amnon Dekel, framkvæmdastjóri HUJI Innovate, gerði grein fyrir fyrir afar umfangsmiklu starfi þess nýsköpunarseturs innan vébanda háskólans. Hagai Eisenberg, prófessor í eðlisfræði, sagði frá fyrirtæki sínu QuantLR sem stofnað var með stuðningi frá Israel Innovation Authority sem Hagay Levin gerði grein fyrir. Að endingu sögðu Raffi Fischer og Maydan Ben-Barak frá fyrirtæki sínu Orcam Technologies.

Forseti er í Ísrael og sækir þar minningarviðburði í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá því að herir Sovétríkjanna hröktu lið nasista frá útrýmingarbúðunum í Auschwitz-Birkenau og frelsuðu fanga þar. Fjölmargir þjóðarleiðtogar og fulltrúar ríkja koma nú saman í Jerúsalem af þessu tilefni.

Fréttatilkynning um ferð forseta Íslands til Ísraels.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar