Fréttapistill | 07. mars 2022

Einhuga þjóð

Þegar stríð geisar á meginlandi Evrópu megum við þakka sem aldrei fyrr að búa í landi fjarri vígaslóð. Það þýðir þó fráleitt að átökin hafi engin áhrif hér. Í skugga styrjaldar og mesta fólksflótta í álfunni frá seinna stríði er gott að vita að hér býr einhuga þjóð, staðráðin í að styðja þá þjóð sem ráðist var á. Um leið getum við haldið áfram því eilífðarverkefni að bæta okkar eigið samfélag. Þar skiptir menntun sköpum.

Í nýliðinni viku hlotnaðist mér sá heiður að sækja viðburði í höfuðborginni sem tengdust henni með ýmsum hætti. Fyrst sat ég málþing um mikilvægi lestrarkunnáttu frá blautu barnsbeini. Svo mætti ég á barnaþing og dáðist þar að fulltrúum ungu kynslóðarinnar á Íslandi, ungmennum sem ræddu um þrjá lykilþætti á leið okkar að betri heimi: Mannréttindi, umhverfismál og menntun.

Eliza lét einnig til sín taka á þessum vettvangi, afhenti verðlaun á Bessastöðum í smásagnakeppni FEKÍ, Félags enskukennara á Íslandi.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar