Fréttapistill | 18. apr. 2024

Góðir grannar í Skotlandi

Skotar eru vinaþjóð okkar Íslendinga, góðir grannar sem gott er að tengjast nánum böndum. Þeir horfa gjarnan til Íslands í ýmsum efnum og því þótti mér vænt um að geta heimsótt Skotland fyrr í vikunni ásamt Elizu, Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra og föruneyti okkar. Við höfðum að markmiði að styrkja enn frekar tengsl þessara tveggja vinaþjóða við Atlantshaf, með áherslu á sögu okkar og menningu.

Ytra átti ég fundi með Humza Yousaf, forsætisráðherra landsins og Cameron lávarði af Lochiel, aðstoðarráðherra í Skotlandsráðuneyti Stóra-Bretlands. Við Íslendingarnir héldum líka í Þjóðminjasafn Skotlands þar sem Lögréttutjöldin svonefndu eru varðveitt en þau verða til sýnis í Þjóðminjasafni okkar í sumar. Þá fórum við á Þjóðarbókhlöðu Skota en þar má finna ýmis rit frá Íslandi, meðal annars fyrstu drögin að Lofsöng sem síðar varð þjóðsöngur okkar. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið við ljóð Matthíasar Jochumssonar þegar þeir voru báðir í Edinborg árið 1874.

Við Edinborgarháskóla hélt ég fyrirlestur, „Iceland the Brave. The power and pitfalls of patriotism in a globalized world.“ Ræddi ég þar enn á ný um efni sem mér hefur verið hugleikið á forsetastóli, þann mun sem gera verður á heilbrigðri ættjarðarást og öfgakenndri þjóðernishyggju þar sem alið er á tortryggni og jafnvel hatri í garð annarra í nafni þjóðareiningar. Ég leyfði mér svo að ljúka erindinu með því að vitna í viðlag eins þekktasta söngs skosku rokksveitarinnar Big Country: „In a big country dreams stay with you, like a lover's voice fires the mountainside: Stay alive.“

Við Eliza gistum í Lamb‘s House, fornu húsi í Leith sem Kristín Hannesdóttir ræðismaður og maki hennar, Nicholas Groves-Raines, gerðu upp af miklu listfengi. Við þökkum þeim og öllum sem við hittum ytra fyrir gestrisni þeirra og góðvild. Upp til hópa eru Íslendingar vel metnir og virtir í Skotlandi.

Fregnir og myndir frá Skotlandsferðinni má finna á vefsíðu forsetaembættisins forseti.is.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 18. apríl 2024.

Myndasafn frá för forsetahjóna til Skotlands.

  • Við Viktoríustræti í Edinborg.
  • Fundur með Humza Yousaf, forsætisráðherra Skotlands, á aðsetri hans að Bute House í Edinborg.
  • Fyrirlestur við Edinborgarháskóla.
  • Lögréttutjöldin skoðuð í Þjóðminjasafni Skotlands. Þau verða lánuð „heim" og höfð til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldis á Íslandi 2024.
  • Edinborgarháskóla, Old College.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar