Eliza Jean Reid

(Ljósmynd: Sigurgeir Sigurjónsson)

Eliza Jean Reid forsetafrú fæddist árið 1976 í Ottawa í Kanada. Hún flutti til Íslands árið 2003. Eliza er með BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Trinity College, University of Toronto þar sem hún gegndi hlutverki Head of College á lokaári sínu. Hún lauk síðar meistaraprófi í sagnfræði frá St. Antony’s College við Oxfordháskóla. Hún talar auk móðurmálsins frönsku og íslensku.

Frú Eliza er annar af stofnendum Iceland Writers Retreat, árlegs móts rithöfunda sem koma hingað til að vinna að skriftum í litlum vinnuhópum og kynna sér bókmenntir Íslendinga. Í þessu hlutverki hefur hún verið virk í að koma íslenskum rithöfundum á framfæri og kynna íslenskar bókmenntir erlendis, einkum í Norður Ameríku. Eliza var í dómnefnd fyrir BC National Award for Canadian Non-Fiction 2018 en það eru ein þekktustu bókmenntaverðlaun Kanada.

Um tíma var Eliza ristjóri flugtímarits Icelandair og blaðamaður hjá Iceland Review og hún hefur birt greinar í Monocle, The Globe and Mail of ýmsum öðrum blöðum og tímaritum. Áður en hún varð forsetafrú kom oft fyrir að erlendir fjölmiðlar leituðu til hennar vegna frétta sem tengdust Íslandi.

Eliza hefur starfað sem sjálfboðaliði í Kanada, á Bretlandi og Íslandi. Hún var sjálfboðaliði á sjúkrahúsi sem táningur og árið 1998 sá hún um stærsta sjálfboðaliðaverkefni Kanada við barnasjúkrahús í Toronto. Meðan hún hún bjó í Bretlandi vann hún einnig ýmis sjálfboðaliðastörf. Á Íslandi starfaði hún um tíma sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og hún var í foreldraráði á leikskóla. Eliza var formaður í samtökum enskumælenda á Íslandi (English-Speaking Union of Iceland, 2009-2013) en það er deild úr alþjóðlegum góðgerðasamtökum sem vinna að friði og velmegun; stofnun ESU á Íslandi var á sínum tíma næststærsta deildarstofnun á vegum samtakanna.

Eliza er verndari ýmissa samtaka á Íslandi, svo sem Félags Sameinuðu þjóðanna, og hún er velgjörðarsendiherra SOS barnaþorpa á Íslandi. Í september 2017 heimsótti hún Za’atari flóttamannabúðirnar í Jórdaníu í boði UN Women og hún er virkur stuðningsmaður baráttunnar fyrir kynjajafnrétti.

Eliza hefur áhuga á ferðalögum og hefur ferðast víða. Hún er velgjörðarsendiherra ferðamennsku og sjálfbærrar þróunar hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO). Hún er í Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA) á Íslandi og var um tíma félagi í Society of American Travel Writers. Eliza fékk styrk sem kórsöngvari við háskólann í Toronto og söng um tíma með Mótettukórnum í Reykjavík.

Eliza og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, eiga fjögur börn saman og heita þau Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013).

Forsetafrúin er verndari þessara samtaka og viðburða

Alzheimersamtökin.
Eyrarrósin.
Ferskir vindar.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Íslenska kokkalandsliðið.
Pieta Ísland.
Samtök lungnasjúklinga.
Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Hún er einnig sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna fyrir ferðamennsku og sjálfbærnimarkmið og velgjörðarsendiherra SOS á Íslandi.

Eliza Reid á samfélagsmiðlum:

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar