Bandalag íslenskra skáta

Bandalag íslenskra skáta starfar eftir þeirri meginreglu að allir menn hafi jafnan rétt, óháð kyni, litarhætti eða trúarbrögðum. Þeir sem gerast félagar í skátahreyfingunni gera það af fúsum og frjálsum vilja. Bandalag íslenskra skáta vill taka virkan þátt í að stuðla að friði meðal manna og þjóða. Bandalag íslenskra skáta leggur áherslu á að líta beri á börn sem einstaklinga sem hafa jafnan rétt og fullorðnir. Þau beri að virða og veita þá þjálfun sem hæfi aldri þeirra og þroska. Bandalag íslenskra skáta leggur áherslu á að virða allar lífsskoðanir sem samrýmast skátalögunum. Í skátastarfi og við inngöngu nýrra félaga í skátahreyfinguna skal tekið fullt tillit til mismunandi trúarskoðana.

Allir sem gerast skátar starfa undir kjörorðinu "Vertu viðbúinn", sem er alþjóðlegt kjörorð skáta. Skátaheitið og skátalögin eru lífsreglur sem geta orðið til þess að vekja hvern og einn til umhugsunar um sjálfan sig og samskiptin við annað fólk. Það er hollt að hafa leiðarvísi til að fara eftir í daglegu lífi og starfi.

Skátahreyfingin hefur sett sér það að markmiði að stuðla að því að börn og unglingar verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar. Með því að tala um að veita einstaklingum þroska er átt við það að hver maður býr yfir fjölmörgum eiginleikum sem unnt er að rækta og þróa. Skátahreyfingin leggur áherslu á að skátar verði sjálfstæðir einstaklingar, sem þjálfa skal til að bera ábyrgð á því sem þeim er falið og læra að bera ábyrgð á eigin gerðum með markvissri þjálfun. Þá læri þeir að meta, rökræða og taka afstöðu til mála. Skátar venjast því að vinna með öðrum og virða skoðanir annarra. Þá virði þeir jafnan rétt allra manna og skilji þjóðfélagslega samábyrgð allra þegna landsins.

Forseti Íslands er verndari Bandalags íslenskra skáta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar