• Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
  • Ljósmyndir/Sigurjón Ragnar
Fréttir | 21. júní 2023

Útflutningsverðlaunin

Forseti afhendir Útflutningsverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Að þessu sinni voru verðlaunin veitt fyrirtækinu Gangverk og veitti Atli Þorbjörnsson framkvæmdastjóri verðlaununum viðtöku. Við sama tilefni var Hanna Birna Kristjánsdóttir heiðruð fyrir störf sín á alþjóðavettvangi.

Markmið Útflutningsverðlauna forseta Íslands er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Um verðlaunahafana

Gangverk er stafræn vöruhönnunarstofa sem sérhæfir sig í stafrænni umbreytingu fyrirtækja. Fyrirtækið er leiðandi á sínu sviði og hefur byggt upp sérstöðu við að takast á við flóknar tæknilegar áskoranir sem hafa skilað hágæða vörum á alþjóðamarkað. Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 120 manns við stafræna vöruþróun. Meginþorri starfseminnar fer fram hér á Íslandi, en dreifist þó einnig til 9 landa, frá Danmörku, Svíþjóð, Hollandi, Englandi og Spáni, yfir til Bandaríkjanna, Ástralíu, Úrúgvæ og Japans.

Hanna Birna Kristjánsdóttir er stofnandi og stjórnarformaður Heimsþings kvenleiðtoga og sérlegur ráðgjafi á skrifstofu framkvæmdastjóra UN Women í New York. Þá hefur hún einnig verið í forsvari fyrir alþjóðlega ráðstefnu kvenleiðtoga sem haldin hefur verið í Hörpu.

Hún hefur á síðustu sjö árum látið markvisst til sín taka í þessum málaflokki og störf hennar hlotið verðskuldaða viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Árið 2016 var hún útnefnd sem ein af 100 áhrifamestu einstaklingum heims í jafnréttismálum af Apolitical. Þá hlaut hún árið 2021 norrænu Blaze verðlaunin fyrir áherslu á jafnrétti með stofnun Reykjavik Global Forum.

Í úthlutunarnefnd Útflutningsverðlaunanna sátu að þessu sinni: Sif Gunnarsdóttir, frá embætti forseta Íslands, Gylfi Magnússon, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Hildur Árnadóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á kostnaði og framkvæmd við verðlaunaveitinguna.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar