Fréttir | 07. feb. 2024

Lífshlaupið

Forseti flytur ávarp og sækir opnunarviðburð Lífshlaupsins í húsakynnum landlæknisembættisins í Reykjavík. Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Fólk á vinnustöðum, í skólum og hreystihópum eldri borgara er hvatt til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.

Í ávarpi sínu minnti forseti á mikilvægi lýðheilsu í samfélaginu og kosti hreyfingar fyrir hvern og einn. Hægt er að horfa á málflutning forseta hér (mín. 10:32-15:22). Auk forseta fluttu opnunarávörp þau Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Alma Möller landlæknir og Lárus Blöndal, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Samhliða voru uppfærðar ráðleggingar frá embætti landlæknis um hreyfingu og takmörkun á kyrrsetu kynntar, meðal annars með leiðbeiningum til fólks með fötlun.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar