• Kór Vídalínskirkju syngur fyrir forsetahjón og gesti við opið hús á Bessastöðum í tilefni 80 ára lýðveldisafmælis.
  • Forsetahjón ásamt nemendum við Háskóla Íslands aðstoða gesti og svara spurningum við opið hús á Bessastöðum.
Fréttir | 08. júní 2024

Opið hús vegna lýðveldisafmælis

Forseti og forsetafrú taka á móti gestum á opnu húsi á Bessastöðum, í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldis á Íslandi. Alls heimsóttu um tvö þúsund manns forsetasetrið og heilsuðu forsetahjón þeim öllum. Þá söng Kór Vídalínskirkju fyrir viðstadda á tröppum Bessastaðastofu þegar húsið var opnað. Myndasafn frá viðburðinum má sjá hér.

Þetta var í síðasta sinn sem Bessastaðir voru opnaðir almenningi í tíð fráfarandi forseta. Frá því að hann tók við embætti árið 2016 hefur opið hús á Bessastöðum orðið að reglulegum viðburði, tvisvar til þrisvar á ári, í því skyni að gefa almenningi öllum kost á að kynnast þjóðhöfðingjasetrinu.

Bessastaðir eiga sér merka sögu. Auk Bessastaðastofu, sem byggð var á 18. öld, gafst gestum kostur á að skoða móttökusal og bókhlöðu forsetasetursins sem eru síðari tíma viðbyggingar. Í húsinu má meðal annars sjá úrval myndlistar eftir íslenska listamenn og sýnishorn gjafa sem borist hafa forsetum lýðveldisins. Þá eru til sýnis dæmi um mannvistarleifar sem fundist hafa við fornleifarannsóknir og veita innsýn í búsetu á Bessastöðum allt frá landnámstíð. Að þessu sinni var Bessastaðakirkja lokuð vegna framkvæmda og fornleifauppgraftar. 

Efnt er til ýmissa viðburða í sumar vegna 80 ára lýðveldisafmælisins. Nánari upplýsingar má sjá á vef stjórnarráðsins.

Sjá pistil forseta: Þakklæti eftir opið hús.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar