Fréttapistill | 08. nóv. 2021

Varðskipið Freyja til heimahafnar

Um helgina kom varðskipið Freyja til heimahafnar á Siglufirði. Megi gæfa og gott gengi fylgja þessu glæsilega skipi, áhöfn hennar og öllum sem sinna björgunarstörfum á sjó og landi. Mér hlotnaðist sá heiður að flytja þannig kveðju nyrðra og ítreka hana hér. Um helgina var neyðarkallinn líka seldur til stuðnings björgunarsveitum og slysavarnadeildum í landinu. Sjálfboðaliðar okkar og starfslið sveitanna vinna ómetanlegt starf á neyðarstundu.

Þegar þörfin knýr getum við Íslendingar staðið saman. Það höfum við sýnt síðustu misseri og þótt við séum mörg orðin langþreytt á hömlum til varnar veirunni vona ég að fólk telji ekki eftir sér að sinna eigin sóttvörnum og fylgja leiðbeiningum um grímur, fjöldatakmarkanir og annan viðbúnað sem er ekki mjög íþyngjandi fyrir hvern og einn eða samfélagið í heild þegar allt kemur til alls.

Á ferð minni í Fjallabyggð um helgina auðnaðist mér að sækja fólk heim og halda á viðburði. Ég þakka gestrisni og hlýhug heimafólks og bendi á að nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu forsetaembættisins. Þar má einnig finna fregnir af öðru sem á dagana dreif í nýliðinni viku. Má þar nefna móttöku erlendra sendiherra, heimsókn fulltrúa tölvuleiksins League of Legends, kynningu á neyðarkallinum með hífingu um borð í þyrlu og fund með nemendum Alþjóðlega jafnréttisskólans.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 8. nóvember 2021.

  • Ljósmyndir/Árni Sæberg
  • Ljósmyndir/Árni Sæberg
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar