Fréttapistill | 25. feb. 2022

Öllu aflétt

Í dag eru merk tímamót á Íslandi. Heimsfaraldrinum er ekki lokið en nú hefur verið aflétt öllum hömlum til að stemma stigu við honum. Veiran hefur veikst, viðbrögð taka mið af því. Áfram er þó sjálfsagt að sinna eigin sóttvörnum, þvo sér vel um hendur, nota grímur ef fólk kýs og halda ekki á mannamót ef grunur vaknar um smit.

Þegar fram líða stundir verða varnir okkar gegn þessum vágesti hafðar til vitnis um mátt samstöðu og samkenndar, mátt rannsókna og þekkingar. Bóluefni björguðu miklu auk annarra framfara læknavísinda og öflugs heilbrigðiskerfis. Við Íslendingar stöndum í þakkarskuld við öll þau sem hafa staðið í ströngu í þjóðarþágu. Ekki næ ég að geta allra en nefni hér einkum starfslið sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, kennara, skólaliða og aðra í menntakerfinu, afgreiðslufólk víða, vísindamenn við háskóla og rannsóknastofnanir, lögreglu, björgunarsveitir og annað fólk sem sinnt hefur hvers kyns samfélagsstörfum í hremmingum síðustu missera. Framlínulið okkar á einnig heiður skilinn, þríeykið svonefnda og öll þau önnur sem mikið hefur mætt á. Sumum höfum við tekið vel eftir en aðrir samlandar okkar hafa unnið sín drjúgu verk í kyrrþey. Við skulum þakka þeim öllum og við skulum þakka fyrir lífið. Við höfum misst fólk af völdum veirunnar og þau eru til sem enn glíma við eftirköst erfiðra veikinda.

Við skulum líka þakka fyrir að búa í lýðræðisríki. Engum hefur verið bannað að tjá sig um aðgerðir stjórnvalda; gagnrýni og ólík sjónarmið hafa heldur betur heyrst. En fólkið í landinu studdi vel rökstuddar varnir sem gripið var til, ekki síst vegna þess að valdboði var ekki beitt, og vegna þess að stjórnvöld öxluðu ábyrgð en treystu forystu og ráðgjöf sérfræðinga. Já, við skulum þakka fyrir að búa í lýðræðisríki. Það er ekki sjálfgefið.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar