Fréttapistill | 21. apr. 2022

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar, kæru landar. Við Íslendingar fögnum víst komu sumars fyrr en flestar aðrar þjóðir. Ég hef það til merkis um bjartsýni okkar og vorhug. Í dag hlotnaðist mér sá heiður að opna með formlegum hætti nýtt húsnæði Einstakra barna, stuðningsfélags barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Við Maron Pétursson klipptum á borða í aðsetri félagsins við Urðarhvarf í Kópavogi og fórst honum það vel úr hendi. Fyrir aldarfjórðungi stofnuðu nokkrir foreldrar félagið Einstök börn en nú eiga um 500 fjölskyldur aðild að því. Félagið nýtur stuðnings víða og í stuttu ávarpi þakkaði ég þann atbeina og óskaði Einstökum börnum allra heilla á nýjum stað.

Síðar í dag lá leið mín í Garðyrkjuskólann á Reykjum í Hveragerði. Þar var fyrsta degi sumars fagnað og verðlaun ársins 2022 afhent. Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur hlaut Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar og Björn Bjarndal Jónsson skógfræðingur var sæmdur Heiðursverðlaunum garðyrkjunnar. Þá fengu Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæmis – Kirkjugarðurinn í Fossvogi viðurkenningu sem Verknámsstaður garðyrkjunnar. Ég óska öllum verðlaunahöfum hjartanlega til hamingju með verðskuldaðan heiður.

Í kvöld höldum við Eliza svo að Bifröst í Borgarfirði. Þar munum við heilsa upp á flóttafólk frá Úkraínu sem fengið hefur skjól frá vígaslóð í heimalandi sínu. Í gær leit ég við á „Griðastað“, hjálparstöð sjálfboðaliða fyrir flóttafólk frá Úkraínu. Stöðin er í húsnæði auglýsingastofunnar Pipar/TBWA í Reykjavík. Heitur matur er þar á borðum og önnur þjónusta í boði fyrir fólk sem flúið hefur Úkraínu eftir innrás Rússlandshers í landið. Ég naut þess þar að ræða við fólk og flutti þar stutt ávarp.

Upp til hópa búum við Íslendingar við öryggi, velsæld og hamingju. Við getum ekki gengið að því sem vísu. Og vonandi verður almenn velmegun okkar aldrei til þess að við hugsum aðeins um eigin hag og vonum að hrakfarir annarra hitti okkur ekki fyrir.

Á sumardeginum fyrsta megum við horfa björtum augum fram á veg. Ég segi því aftur: Gleðilegt sumar!

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar