Fréttapistill | 03. ágú. 2022

Eldgos hafið á ný

Nú er hafið gos á ný. Jarðeldur logar í Geldingadölum. Vonandi valda umbrotin ekki usla eða skemmdum. Í morgun héldum við Eliza til Grindavíkur, hittum þar Fannar Jónasson bæjarstjóra og bæjarfulltrúa, auk ungra sem aldinna víða í bænum.

Við litum m.a. við á stöðum þar sem tjón varð vegna skjálftanna nýverið, á Bryggjunni og í Blómakoti, fylgdumst með löndun og fengum okkur plokkfisk í Víðihlíð, dvalarheimili aldraðra.

Víða heyrðum við þá von að skjálftahrinunni væri lokið en ef gjósa þyrfti væri best að það gerðist sem fyrst og fjarri byggð eins og síðast. Æðruleysi einkenndi allt heimafólk. Nú vonum við áfram að allt fari vel.

Við hjónin þökkum Grindvíkingum fyrir gestrisni þeirra. Við þökkum þeim sömuleiðis sem fylgjast nú grannt með gangi mála á gosstöðvum og vinna að því að tryggja öryggi okkar allra. Förum að öllu með gát.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar