Fréttapistill | 22. jan. 2023

Vélarvana á Halamiðum

Ekki fer allt eins og ætlað er. Nú siglum við á varðskipinu Freyju til Akureyrar, ég orðinn lögskráður um borð. Til hafði staðið í gærkvöldi að ég héldi með Freyju til Patreksfjarðar þar sem ég, fulltrúar Landhelgisgæslunnar og fleiri sæktum minningarstund vegna þess að fjörutíu ár eru liðin frá hinum miklu krapaflóðum sem urðu fjórum að aldurtila. Á leið yfir Breiðafjörð barst hins vegar beiðni um aðstoð frá Hrafni Sveinbjarnarsyni GK sem varð vélarvana á Halamiðum. Að sjálfsögðu var kúrsinn tekinn þangað.

Togarinn var tekinn í tog og skyldi haldið til Ísafjarðar. Nokkru síðar tókst hins vegar að ræsa vélar á ný og nú heldur Freyja til Akureyrar en Hrafninn suður á bóg.
Ég hef notið gestrisni og góðvildar Friðriks Höskuldssonar skipherra og áhafnar hans um borð í hinu glæsilega varðskipi okkar Íslendinga. Hér náðum við að fylgjast með sigurleik strákanna okkar gegn Brasilíu og þakka ég þeim fyrir skemmtunina síðustu daga. Ekki gekk allt upp en það kemur mót eftir þetta mót. Ég sendi áhöfn Hrafns Sveinbjarnarsonar einnig góðar kveðjur. Það er ekkert grín að vera án ljóss og hita úti á ballarhafi, rétt við ísrönd og fjarri landi en reyndar var þar lygnt og líklega var veður hvergi eins gott í íslenskri lögsögu í dag og úti á Halamiðum. Það var þó lán í óláni.

Ég ítreka að lokum hlýjar kveðjur til Patreksfirðinga og stefni á að heimsækja fólkið í Vesturbyggð fyrr en síðar. Ávarp mitt, sem var flutt á minningarathöfninni, má lesa hér á vefsíðu forsetaembættisins.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

  • Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson
  • Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson
  • Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar