Fréttapistill | 12. júní 2023

Brautskráningar

Alltaf er jafn gaman að fagna með nemendum sem útskrifast að námi loknu. Fyrir helgi naut ég þess með fríðum hópi sem lauk námi við Endurmenntun Háskóla Íslands og á laugardaginn sótti ég Háskólahátíð Háskólans á Akureyri þar sem nemar í grunnnámi tóku við prófskírteinum sínum, í sól og blíðu sem lítt hefur gætt hér syðra. Á báðum stöðum flutti ég ávörp sem lesa má á vefsíðu forsetaembættisins.

Í máli mínu komst ég m.a. svo að orði:
„Í hinum víða skilningi er menntun líka menning og mennska, einlægur vilji til að bæta sjálfan sig og þann heim sem maður lifir í, efling þekkingar, víðsýni og visku. Sönn menntun felur í sér fræðileg og heiðarleg vinnubrögð, hlutlægni frekar en fordóma, það hugrekki að standa með sannfæringu sinni en bera um leið virðingu fyrir ólíkum skoðunum og sjónarmiðum, rækta þann hæfileika að geta sett sig í spor annarra og sýnt samkennd, halda í sitt tjáningarfrelsi en varast þjáningarsköpun. […] Þar að auki má sérhverri menntun fylgja stolt yfir aukinni kunnáttu, stolt yfir námsgráðu ef því er að skipta, stolt yfir sérþekkingu sem ekki er á allra færi. Aftur á móti má slíkt menntastolt ekki breytast í dramb og mikillæti, menntasnobb. Lítið gagn er í blindri virðingu fyrir fræðum og gráðum.“
Norðan heiða naut ég þess einnig að kynnast listsköpun í Eyjafjarðarsveit, komst þá meðal annars í tæri við hina mögnuðu kú Eddu sem eldsmiðurinn Beate Stormo í Kristnesi skapaði. Og í gær hlotnaðist mér sá heiður að flytja ávarp á hátíðarviðburði Sjálfsbjargarheimilisins í Reykjavík sem fagnar hálfrar aldar afmæli um þessar mundir. Við þau tímamót var tilkynnt um nýtt nafn á húsið og starfsemi þar. Kjarkur - endurhæfing heitir það núna.

Ég ítreka heillaóskir til allra sem lokið hafa námi eða náð öðru markmiði um þessar mundir. Gangi ykkur allt í haginn!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

  • Ljósmynd/Helga Dögg Reynisdóttir
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar