Fréttapistill | 17. júní 2023

Gleðilegan þjóðhátíðardag!

Gleðilegan þjóðhátíðardag, kæru landsmenn! Fyrir hönd okkar Elizu sendi ég ykkur heillaóskir á sameiginlegum degi okkar allra í þessu fallega landi. Þrátt fyrir allt sem betur má fara megum við fagna öllu því sem vel hefur gengið, öllu því sem vel er gert og öllu því sem framtíðin býður upp á ef rétt er að málum staðið.

Ísland er ekki voldugasta land í heimi. Við búum í smáríki og eigum allt okkar undir því að alþjóðalög séu virt, að hnefarétturinn ráði ekki mestu í heiminum. Stundum er sagt að aga skorti á Íslandi, jafnvel heraga eða þá reglu og festu sem fylgi því að eiga ríkisher. Þá nefni ég gjarnan að í aldanna rás höfum við herst í baráttu við óblíð náttúruöfl. Aga, seiglu og samheldni getum við meðal annars fundið í björgunarsveitum og öðrum sem veita hjálp í viðlögum þegar þörfin knýr.

Á myndinni ræðum við Eliza við ísfirsk börn sem tóku á móti okkur með þjóðfánann á lofti í opinberri heimsókn 2022. Gleðilega hátíð aftur og njótið dagsins!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

  • Ljósmynd/Haukur Sigurðsson
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar