Fréttapistill | 10. júlí 2023

Gosið er byrjað

Gosið er byrjað. Það leið nánast hálf öld upp á dag frá því að eldgosinu í Heimaey lauk þar til eldsumbrot hófust á ný á Reykjanesskaga, í þriðja sinn á þremur árum. Blessunarlega er ólíku saman að jafna, lítil hætta á ferðum við fyrstu sýn og fólk hefur vonandi vit á því að fara varlega. Auðvitað er magnað að verða vitni að mætti náttúruaflanna en sýnum gát og höfum tilmæli Almannavarna í huga. Nú hefur svæðinu verið lokað vegna hættu af gasmengun. Héðan frá Bessastöðum sést til gossins í fjarska og við fylgjumst áfram með framgangi þess eins og þið öll, úr öruggri fjarlægð.

  • Ljósmynd/Benedikt Gunnar Ófeigsson hjá Veðurstofu Íslands.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar