Fréttapistill | 28. ágú. 2023

Opinber heimsókn til Akureyrar

Við Eliza þökkum kærlega höfðinglegar móttökur sem við nutum á Akureyri um helgina. Oft liggur leið okkar norður í ýmsum erindagjörðum. Í þetta sinn fórum við í fyrsta sinn í opinbera heimsókn til Akureyrar og fengum því tækifæri til að kynnast þessu blómlega bæjarfélagi betur en nokkru sinni. Í opinberum heimsóknum förum við víða og reynum að hitta sem flest fólk á öllum aldri, kynnumst þannig menningu og mannlífi, atvinnu og afþreyingu. Nú nutum við einnig þess heiðurs að sækja Akureyrarvöku, bæjarhátíð sem ég setti formlega á föstudagskvöld. Þá opnaði ég formlega fimm sýningar sem settar voru upp í Listasafni Akureyrar í tilefni af 30 ára afmæli þess.

Í Lystigarðinum góða flutti ég ávarp og færði Akureyrarbæ að gjöf mynd sem tekin var af Sveini Björnssyni í ágúst 1944, rétt eftir lýðveldisstofnun. Forseti var þá í sinni fyrstu opinberu heimsókn til höfuðstaðar Norðurlands og var tekið með kostum og kynjum; hann naut sömu gestrisni og góðvildar og við hjónin nú. Í máli mínu nefndi ég meðal annars að í mannmergðinni sem tók á móti forseta þá voru öldungar, fæddir upp úr miðri nítjándu öld, og sagði svo:

„Það fólk hafði séð sitthvað á langri ævi, jafnvel lifað við sult og seyru, þurft að þola skelfileg harðindaár og misrétti, ófremdarástand sem knúði marga ættingja þeirra til að flýja vestur um haf. Ég gef mér því að sum hinna öldnu hafi hugsað með sér þegar þau fögnuðu nýkjörnum forseta í nýstofnuðu lýðveldi hér í garðinum: Þetta gátum við þrátt fyrir allt, nú verður framtíðin bjartari!

Og hér erum við nær áttatíu árum síðar. Auðvitað er margt sem gera má miklu betur og margt var raunar fallegt og farsælt í samfélaginu árið 1944 – sum þeirra vandamála sem við þurfum að glíma við nú um stundir voru ekki til þá og jafnvel má spyrja hvort fólk hafi verið þrautseigara og nægjusamara um þær mundir. Hvað sem um það má segja getum við haldið því fram að saman höfum við gengið til góðs. Heilt yfir eru lífsgæði meiri nú en þá, heilsa fólks betri og réttindi ríkari, fjölbreytni meiri og frelsi sömuleiðis, möguleikar allra til að sýna sjálfum sér og öðrum hvað í manni býr mun tryggari og jafnari.

Fyrir þetta megum við þakka – og hverjum þá, meðal annarra? Jú, þeim sem voru hérna með Sveini forseta á sínum tíma, þeirri kynslóð sem lagði sitt af mörkum með viti og striti og ekki síst í þágu okkar sem á eftir komum. Við hin yngri stöndum í þakkarskuld við þau öll og um leið er það skylda okkar að búa í haginn fyrir hina nýju kynslóð sem landið erfir.
Já, svona heldur hún áfram, saga þessarar þjóðar, saga þessa lands. Ugglaust er eitthvert fólk enn ofan foldar sem tók á móti Sveini forseta á nákvæmlega þessum stað fyrir tæpum áttatíu árum. Leyfum okkur líka að segja fyrir víst að eftir áttatíu ár muni einhver úr ungmennaskaranum, sem hér er í kvöld, fagna með öðrum forseta lýðveldisins Íslands.“

Ræðuna alla má lesa á vefsíðu embættisins og þar má líka sjá myndasafn frá opinberri heimsókn okkar Elizu. Akureyringum þakka ég aftur fyrir hlýhuginn og hlakka til frekari ferða norður yfir heiðar.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 28. ágúst 2023.

  • Við upphaf opinberrar heimsóknar til Akureyrar, 25. ágúst 2023. Ljósmynd/Daníel Starrason
  • Við setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, tekur við ljósmynd frá 1944 af Sveini Björnssyni, forseta Íslands, á Akureyri. Ljósmynd/Daníel Starrason
  • Sveinn Björnsson, forseti Íslands, heimsækir Akureyri 4. ágúst 1944. Myndin var gjöf til Akureyrarbæjar í opinberri heimsókn forsetahjóna á Akureyrarvöku, 25. ágúst 2023. Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson fyrir forsetaembættið.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar