Fréttapistill | 25. okt. 2023

Ísdagar í Osló

Aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni fór fram um síðustu helgi og sótti ég hátíðahöldin. Ytra átti ég einnig fund með Haraldi Noregskonungi. Hann ber hlýjan hug til Íslands og Íslendinga eins og allt hans fólk og Norðmenn upp til hópa.

Hátíðaragskráin var glæsileg í alla staði undir nafni Ísdaga. Tónleikar og listsýningar, móttaka í ráðhúsi höfuðborgarinnar og kynning á íslenskum bókmenntum og rithöfundum í Bókmenntahúsinu í Osló, Litteraturhuset (sem vekur þá hugmynd hvort Safnahúsið í Reykjavík gæti ekki orðið glæsileg miðstöð alls kyns menningar, með lífi og fjöri þar sem hið gamla og nýja í yrðu í sífelldri deiglu, okkur Íslendingum og gestum okkar til ánægju og yndisauka).

Ég þakka skipuleggjendum Ísdaga kærlega fyrir frábæran viðburð, stjórn Íslendingafélagsins sömuleiðis og starfsliði sendiráðsins í Osló. Gaman var að spjalla við landa úti. Yfir 9.000 íslenskir ríkisborgarar munu búa í Noregi um þessar mundir. Í hátíðarávarpi sagði ég meðal annars:

„Ísdagarnir minna okkur á hin sterku bönd sem tengja okkur saman, Íslendinga og Norðmenn. Þau eru auðvitað ævaforn. Segja má söguna af því að á sínum tíma hafi norskir höfðingjar horfið héðan með allt sitt lið og haldið til ónumins lands úti í hafsauga ‒ vegna ofríkis og skattheimtu Haralds konungs hárfagra. Ef við leggjum fullan trúnað á það getum við svo sem líka bent á að um okkar daga hafa forystumenn í norsku fiskeldi gantast með það að kannski þurfi þeir að flýja til Íslands út af auknum álögum og ströngum reglum um umhverfisvernd hér í landi. Svona getur sagan þá endurtekið sig. …

Hvers vegna flytja Íslendingar hingað? Fyrir því eru margar mismunandi ástæður en ég gerði mér til gamans að skoða vísbendingar um slíkt á Fésbókarsíðu Íslendinga í Noregi. Oft er efnahagsástandið heima nefnt, langir vinnudagar og lægri laun, háir vextir og verðtrygging lána, staðan í stjórnmálunum og jafnvel veðrið og fjarlægðin frá öðrum löndum. Sumt hlýtur að vera hægt að bæta en á sinn hátt er skiljanlegt að fólk kjósi að flytja hingað í þennan sælunnar reit.
Á mörgum listum um lífsgæði trónir Noregur á toppnum eða við hann. Ég nefni sem dæmi að á lista yfir ríki um hamingju og hagsæld sem Gallup tekur saman er Noregur í sjöunda sæti í ár. Vonandi fyrirgefst mér þó sem forseta Íslands að benda um leið á að landið mitt vermir þar þriðja sætið.
Mest er um vert að fólki líði vel hvar sem það dvelur hverju sinni. Nú þegar stríð geisa víða megum við Norðurlandabúar þakka fyrir þann frið og þá velsæld sem við njótum þótt við skulum ætíð stefna að því að gera enn betur.“

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 25. október 2023.

 • Móttaka í ráðhúsi Oslóar á aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Móttaka í ráðhúsi Oslóar á aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Óperugala með íslensku listafólki í tilefni aldarafmælisi Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Barnamenningarhátíð í Gamle Munch safninu í tilefni af aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Barnamenningarhátíð í Gamle Munch safninu í tilefni af aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Opnun listasýningar norskra og íslenskra listakvenna í Gamle Munch safninu í tilefni af aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Móttaka Norsk-íslenska viðskiptaráðsins um borð í rafskipinu Brisen á Oslóarfirði.
 • Bókmenntahátíðin Levende språk skaper litteratur, sem helguð var íslenskum bókmenntum í Litteraturhuset í tilefni af aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Bókmenntahátíðin Levende språk skaper litteratur, sem helguð var íslenskum bókmenntum í Litteraturhuset í tilefni af aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Óperugala með íslensku listafólki í tilefni aldarafmælisi Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
 • Kvöldverður með sendiherra Íslands í Noregi og skipuleggendum Ísdaga 2023.
 • Barnamenningarhátíð í Gamle Munch safninu í tilefni af aldarafmæli Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Ljósmynd: Myriam Marti Fotografi og Freydis foto
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar