Fréttapistill | 06. nóv. 2023

Látum ekki hugfallast

Við horfum nú upp á miklar hörmungar og þjáningu meðal almennra borgara á Gazasvæðinu. Frá Sameinuðu þjóðunum heyrist ákall um tafarlaust vopnahlé í nafni mannúðar ásamt kröfunni um að gíslum verði sleppt og alþjóðalög séu virt. Sífellt fleiri taka undir þau orð. Við hljótum að lifa í þeirri von að fleiri saklausir borgarar þurfi ekki að falla í valinn þótt erfitt sé að finna friðarlausn til frambúðar.

Á sama tíma búum við okkur undir hugsanleg eldsumbrot nærri byggð og mannvirkjum hér á landi. Já, það er margt sem mæðir á en látum ekki hugfallast og leyfum okkur líka að njóta þess sem gott er.

Um helgina fór tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fram í Reykjavík. Sú hefð hefur myndast að setningarathöfnin sé haldin á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Þar naut ég þess heiðurs að flytja opnunarávarp og hlýða svo á góða tónlist ásamt íbúum Grundar, leikskólabörnum úr nágrenninu og stórum hópi erlendra hátíðargesta sem flykkjast árlega hingað til lands. Í ár voru það Mugison og Una Torfa sem sungu á opnunartónleikunum. Bæði syngja þau fyrst og fremst á íslensku og þegar Mugison spurði áheyrendur, á ensku, hvort þau vildu heldur heyra sungið á íslensku eða ensku var svarið frá hinum alþjóðlegu gestum skýrt: Íslensku, takk! Sú mýta að íslenskir tónlistarmenn verði að syngja á ensku til þess að njóta alþjóðlegrar hylli hefur sem betur fer löngu verið afsönnuð.

Um helgina fór líka fram árleg sala neyðarkalls björgunarsveitanna. Neyðarkallinn í ár er aðgerðarstjórnandi og fengum við Eliza nasasjón af því mikilvæga hlutverki á björgunarsveitaræfingu í Öskjuhlíð á fimmtudag. Einnig sótti ég um helgina hátíðarviðburð í Sandgerði í tilefni þess að í ár eru 95 ár liðin frá stofnun Slysavarnadeildarinnar Sigurvonar þar í bæ. Sölu neyðarkallsins er nú lokið en hægt er að styrkja starf Landsbjargar allt árið um kring.

Björgunarsveitarfólkið okkar kom einmitt við sögu á hátíðarviðburði sem sendiherra Tyrklands bauð til á fimmtudag í tilefni af því að öld er liðin frá stofnun lýðveldis þar í landi. Þar voru staddir nokkrir þeirra Íslendinga sem héldu til Tyrklands eftir jarðskjálftana miklu sem riðu yfir fyrr í ár. Gülin Dinç sendiherra þakkaði fyrir þá mikilvægu aðstoð og það gerði ég einnig, í ávarpi þar sem ég rakti ýmsa þætti í samskiptum Íslands og Tyrklands í áranna rás.

Á miðvikudag setti ég hraðskákmót sem haldið var í minningu Hrafns Jökulssonar sem lést fyrir aldur fram í fyrra. Þar var tilkynnt um minningarsjóð í nafni Hrafns og er honum ætlað að styrkja skáklistina, nær og fjær.

Í vikunni sem leið tók ég einnig á móti ýmsum gestum á Bessastöðum. Má þar nefna eldri borgara úr félagsstarfi Ástjarnar- og Kálfatjarnarsóknar og starfsnema erlendra sendiskrifstofa á Íslandi sem heimsóttu mig til að fræðast um Bessastaði og forsetaembættið. Þá tók ég á móti fulltrúum rafíþróttasambanda á Norðurlöndum sem funduðu á Íslandi um stofnun samnorræns sambands.

Fimmtudaginn 2. nóvember átti Morgunblaðið 110 ára afmæli. Af því tilefni bauð ég ritstjórunum Davíð Oddssyni og Haraldi Johannessen til kaffis á Bessastöðum ásamt öðrum fulltrúum blaðsins. Við ræddum stöðu fjölmiðla að fornu og nýju í íslensku samfélagi og framtíðarhorfur í þeim efnum.

Um þessi embættisverk og fleiri má lesa á vefsíðunni www.forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 6. nóvember 2023.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar