Fréttapistill | 08. nóv. 2023

Metnaðarfullt starf í skólakerfinu

Í ferðum mínum um Ísland heimsæki ég jafnan nemendur og kennara á öllum skólastigum. Þannig hef ég fengið góða innsýn í hið metnaðarfulla starf sem unnið er í skólakerfinu um land allt. Því er það ævinlega gleðiefni að veita Íslensku menntaverðlaunin á Bessastöðum. Þannig fögnum við því sem vel er gert og hvetjum fólk jafnframt til frekari dáða. Verðlaunahöfum öllum óska ég innilega til hamingju en þeir eru þessir í ár:

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ fyrir framúrskarandi skólastarf með þróun verkefnamiðaðra kennsluhátta.

Fiona Elizabeth Oliver grunnskólakennari fyrir framúrskarandi kennslu og virkan þátt í þróun leiðsagnarnáms í Víkurskóla í Reykjavík.

Félagsmiðstöðin Zelsíus í Árborg fyrir framúrskarandi þróunarverkefni með því að lyfta grettistaki við að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga, í samstarfi við velferðarþjónustu sveitarfélagsins.

Málarabraut Tækniskólans fyrir framúrskarandi iðnmenntun og þróun einstaklingsmiðaðs náms sem nemendur geta nú stundað á eigin hraða, með hliðsjón af hæfniviðmiðum, hvar á landinu sem er.

Loks hlýtur Jafnréttisskóli Reykjavíkur hvatningarverðlaunin í ár fyrir ómetanlegt starf við að miðla þekkingu um málefni sem varða jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði til uppalenda óháð búsetu.

Nánari upplýsingar um Íslensku menntaverðlaunin og myndasafn frá verðlaunaathöfninni má sjá á vefsíðu embættisins.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 8. nóvember 2023.

  • Ljósmynd: Embætti forseta Íslands/Mummi Lú
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar