Fréttapistill | 13. nóv. 2023

Samverustund með Grindvíkingum

Mér þótti vænt um að við hjónin gátum sótt samverustund með Grindvíkingum í Hallgrímskirkju í gær. Þeir láta engan bilbug á sér finna með frábært fólk í framvarðasveit, Fannar bæjarstjóra og hans lið, björgunarsveitarmennina Boga, Otta og fleiri, séra Elínborgu og aðra sem liggja svo sannarlega ekki á liði sínu.

Við Eliza litum einnig við í fjöldahjálparstöðinni í Kópavogi á laugardaginn og ræddum við fólk sem þurfti að yfirgefa heimili sín. Mikið er á Grindvíkinga lagt en finna má styrk í samverunni og þeirri miklu samkennd sem íslenska þjóðin sýnir þegar á reynir. Við skulum áfram vona það besta en búa okkur undir allan þann miska sem hin römmu náttúruöfl geta gert okkur.

Í ávarpi í kirkjunni í gær þakkaði ég þeim fjölmörgu sem hafa boðið húsaskjól og aðra aðstoð í stóru sem smáu. Ég er stoltur og þakklátur yfir því að búa í samfélagi sem bregst svo vel við óvæntri ógn.

Ávarp mitt til Grindvíkinga og annarra landsmanna má lesa á vefsíðu embættisins. Myndirnar tóku ljósmyndarar mbl.is í Hallgrímskirkju í gær.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 13. nóvember 2023.

  • Samverustund með Grindvíkingum í Hallgrímskirkju. Ljósmynd: mbl.is / Óttar
  • Með Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur, á samverustund Grindvíkinga í Hallgrímskirkju. Ljósmynd: mbl.is / Kristinn Magnússon
  • Samverustund með Grindvíkingum í Hallgrímskirkju. Ljósmynd: mbl.is / Kristinn Magnússon
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar