Fréttapistill | 17. maí 2024

Styðjum Eistland með ráðum og dáð

Eistlandsheimsókn minni er nú lokið. Ég þakka gestrisni og góðvild Alars Karis forseta og Eista allra. Í höfuðborginni Tallinn sat ég alþjóðaráðstefnu um öryggismál sem kennd er við Lennart Meri, utanríkisráðherra Eistlands við sjálfstæðisheimt og forseta landsins um árabil. Í pallborði sem ég tók þátt í ásamt Kaja Kallas forsætisráðherra og fleirum var sjónum einkum beint að innrás Rússlands í Úkraínu og viðbrögðum í Evrópu. Ég rakti stuðning íslenskra stjórnvalda og landsmanna við Úkraínumenn, móttöku flóttafólks, mannúðaraðstoð og efnahagslegan stuðning, auk þeirra umræðna sem urðu heima vegna þátttöku í skotfærakaupum fyrir Úkraínuher. Sagði ég meðal annars að þótt Íslendingar vildu gjarnan einskorða sinn stuðning við aðstoð af því tagi að senda hermönnum til dæmis vettlinga og sokka væri lítið gagn í því ef þeir væru án vopna á vígstöðvunum. Þarna vöknuðu því ýmis álitamál. Hægt er að horfa á pallborðsumræðurnar hér.

Í Eistlandi þykir einsýnt að fari Rússar með sigur af hólmi í Úkraínu auki það hættu á frekari hörmungum í þessum heimshluta. Þetta fann ég ekki síst þegar við Eistlandsforseti fórum með föruneyti að borginni Narva við landamæri Rússlands og ræddum þar við embættismenn og fleiri um sambúð smáþjóðar við stórveldið í austri í bráð og lengd. Við fórum svo víðar um norðausturhluta Eistlands, heimsóttum söfn, forritunarskóla þar sem engra kennara er þörf og héldum um mýrar og skóga þar sem unnið er að endurheimt votlendis. Einnig fræddist ég um námugröft á þessum slóðum, þau áform að ljúka honum senn og byggja í staðinn upp annan og umhverfisvænni iðnað.

Mér þótti vænt um að geta kvatt Karis forseta áður en forsetatíð minni lýkur. Eistland er ríki í norðurhluta Evrópu sem við Íslendingar getum stutt með ráðum og dáð. Eistar eru framarlega á mörgum svæðum, hafa nýsköpun í hávegum og getum við margt lært af þessari öflugu þjóð. Vart þarf að taka fram að atbeini Íslendinga í sjálfstæðisbaráttu þeirra árin 1990‒1991 er enn í hávegum hafður og kemur einatt til tals.

Frekari upplýsingar um Eistlandsferðina má sjá á vefsíðu forsetaembættisins.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 17. maí 2024.

  • Með Alar Karis, forseta Eistlands, við forsetahöllina í Tallinn. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Ásamt Kaja Kallis, forsætisráðherra Eistlands, í Tallinn.
  • Pallborðsumræður ásamt forsætisráðherra Eistlands og fleirum á Lennart Meri öryggismálaráðstefnunni í Tallinn. Ljósmynd: Arno Mikkor / Lennart Meri Conference.
  • Siglt á ánni Narva í norðurhluta Eistlands við landamærin að Rússlandi. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Kvöldverður í boði Alar Karis í forsetahöll Eistlands. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Með Alar Karis Eistlandsforseta í Tallinn. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Með Alar Karis Eistlandsforseta í Tallinn. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Landamæraeftirlit í Narva, við landamæri Eistlands og Rússlands, ásamt Alar Karis forseta Eistlands og Lauri Bambus, sendiherra Eistlands gagnvart Íslandi. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Heimsókn í eistneska forritunarskólann kood/Jõhvi þar sem nemendur kenna sér sjálfir forritun með nýstárlegum leiðum. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Með Alar Karis, forseta Eistlands, á stríðsminjasafni í norðurhluta Eistlands. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Rætt við unga Eista ásamt Alar Karis, forseta Eistlands. Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
  • Ritað í gestabók á skrifstofu Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands.
  • Ljósmynd: Forsetaskrifstofa Eistlands / Raigo Pajula.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar