Fréttir | 05. apr. 2023

Tilnefningar til lýðheilsuverðlauna

Sex aðilar hafa verið tilnefndir til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna sem forseti Íslands efnir til í fyrsta sinn í vor. Kallað var eftir hugmyndum að verðugum verðlaunahöfum frá almenningi og bárust hátt í 350 tillögur. Dómnefnd hefur nú tekið þær til umfjöllunar og tilnefnt þrjú verkefni í hvorum af eftirfarandi tveimur flokkum:

Tilnefningar í flokki einstaklinga

Ingibjörg Jóhannsdóttir: Ingibjörg situr í stjórn Ungmennafélagsins Ólafs Páa í Dölunum og hefur af eldmóði sinnt margvíslegu almannaheillastarfi í heimahéraði um árabil og staðið fyrir fræðslunámskeiðum fyrir allan aldur. Síðastliðin tvö ár hefur hún verið leiðandi í sjálfboðaliðaverkefni sem felst í að koma upp líkamsræktarstöð með aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara í Dalabyggð svo heimamenn þurfi ekki að sækja þjónustuna annað.

Olga Khodos: Olga hefur undanfarið ár veitt úkraínsku flóttafólki sálrænan stuðning og þjónustu hér á landi. Hún hefur starfað sem sjálfboðaliði við sálgæslu og veitt áfallahjálp til hundruða Úkraínumanna sem flúið hafa stríðið og leitað til Íslands.

Snorri Már Snorrason: Snorri hefur barist við parkinsonssjúkdóminn í 19 ár og í þeirri baráttu er hreyfingin hans helsta vopn. Hann hefur verið óþreytandi við að benda á gagnsemi þess að stunda hvers konar hreyfingu, ekki bara sem forvörn gegn heilsuleysi heldur líka sem meðferð við sjúkdómnum og til þess að halda niðri sjúkdómseinkennum ólæknandi sjúkdóma.

Tilnefningar í flokki fyrirtækja/samtaka/stofnana

Janus heilsuefling: Í samstarfi við sveitarfélög hefur Janus heilsuefling sérhæft sig í bættri lýðheilsu eldri borgara, 60 ára og eldri. Markmið verkefnisins er að koma til móts við einstaklinga sem vilja efla heilsu sína og lífsgæði með hækkandi aldri.

Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands: Meginverkefni MLV eru fjölbreyttar faraldsfræðilegar rannsóknir á áhrifaþáttum heilsu, í samstarfi við innlent og erlent vísindafólk, ekki síst rannsóknir á áhrifum áfalla á heilsu. Má nefna rannsóknir á áhrifum ofbeldis, samfélagslegra áfalla, s.s. efnahagshrun og náttúruhamfarir og nú síðast stórar ferilrannsóknir á borð við Áfallasögu kvenna og Líðan þjóðar á tímum Covid-19.

Íþróttafélagið Ösp – íþróttir án aðgreiningar: Í 40 ár hefur félagið verið leiðandi í íþróttaiðkun fyrir fólk með fötlun og/eða sérþarfir. Ösp býður upp á fjölbreytta möguleika í íþróttaþjálfun þar sem öll eru velkomin og hefur lagt sig fram um að bjóða fram nýjar íþróttir sem vekja áhuga og eru spennandi fyrir unga iðkendur. Mikil áhersla er lögð á lífsleikni og almenna fræðslu um heilbrigði innan og utan íþrótta. Einnig er lögð áhersla á liðsheild, stuðning og gleði þar sem hver einstaklingur fær notið sín.

Íslensku lýðheilsuverðlaunin eru samstarfsverkefni embættis forseta Íslands, heilbrigðisráðuneytisins, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, embættis landlæknis og Geðhjálpar. Markmið þeirra er að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan þjóðarinnar. Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin í hátíðlegri athöfn á Bessastöðum sem sjónvarpað verður á RÚV þann 19. apríl.

Fréttatilkynning

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar