• Forsetahjón ásamt Margréti drottningu á Bessastöðum 2018 og ásamt Friðriki X. á Bessastöðum árið 2021.
Fréttir | 14. jan. 2024

Heillaóskir til Danmerkur

Forseti sendir heillaóskir til Margrétar Þórhildar drottningar og sonar hennar, Friðriks X. Danakonungs. Drottning afsalar sér í dag krúnunni á ríkisráðsfundi í Kaupmannahöfn og um leið verður sonur hennar Friðrik konungur Danmerkur og eiginkona hans María drottning.

Í bréfi sínu til drottningar þakkar forseti henni fyrir farsæla þjónustu í þágu Danmerkur í rúmlega hálfa öld og um leið fyrir allan hennar atbeina við að treysta vinasamband Íslands og Danmerkur í áranna rás. „Fyrir hönd okkar Íslendinga ítreka ég heillaóskir til yðar með þeirri einlægu von að þér munið njóta notalegs ævikvölds. Ætíð eruð þér velkomnar til Íslands og ætíð munum við geyma góðar minningar um drottningu okkar frændþjóðar,“ segir í bréfi forseta til Margrétar drottningar.

Þá sendi forseti heillaóskir fyrir hönd íslensku þjóðarinnar til Friðriks konungs og fjölskyldu hans með einlægri von um frekari farsæld í störfum. Í bréfinu áréttaði forseti traust samband Íslands og Danmerkur og viljann til að treysta þau vinabönd enn frekar. Enn fremur þakkaði forseti ljúf kynni í gagnkvæmum heimsóknum. „Ég minnist þess sérstaklega hve vel yður hefur auðnast að sýna hvort tvegga í senn, virðingu fyrir venjum og hefðum en einnig létta lund og vingjarnlegt viðmót. Þetta er ekki öllum gefið en þetta gerið þér listavel," segir í bréfi forseta til Friðriks konungs.

Myndasöfn:

Heimsókn Danadrottningar á 100 ára afmæli fullveldis Íslands 2018.

Ríkisheimsókn forsetahjóna til Danmerkur 2017, fyrri dagur.

Ríkisheimsókn forsetahjóna til Danmerkur 2017. seinni dagur.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar