Fréttapistill | 31. mars 2024

Gleðilega páska, kæru landsmenn

Gleðilega páska, kæru landsmenn.

Mér þótti vænt um að flytja hugvekju við hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík í morgun. Þar notaði ég tækifærið og þakkaði öllum kirkjunnar þjónum fyrir ljúft samstarf í þeirri forsetatíð minni sem lýkur senn. Í erindinu hugleiddi ég svo samband vonar, trúar og vísinda með hliðsjón af náttúruhamförunum við Grindavík að undanförnu og eldsumbrotum fyrri alda. Ræðuna má lesa á vefsíðu forsetaembættisins en um leið og ég ítreka hlýjar kveðjur til ykkar allra læt ég lokaorðin fylgja hér:

„Þegar á reynir getur þessi þjóð sýnt hvað í henni býr. Þau eru mörg sem eiga núna þakkir okkar skildar, einvalalið sem hefur unnið dag sem nótt á gosstöðvunum, reist varnarmúra, lagt vegi yfir nýrunnið hraun, lagað vatnsleiðslur og þannig mætti áfram telja. Við gefumst ekki upp og þess vegna verður áfram blómleg byggð í þessu landi. Áfram munu fara saman von og trú, von og vísindi, vísindi og trú. Áfram skulum við styðja og styrkja öflugt samfélag þar sem hvert og eitt okkar má rækta eigin sál og hug, í góðri sátt við guð og menn.“

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 31. mars.

  • Hátíðarguðþjónusta á páskadag í Dómkirkjunni í Reykjavík.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar