Fréttir | 13. sep. 2023

Boð á Barnaþing

Forseti tekur á móti ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og fær afhent boðskort til þátttöku á Barnaþingi 2023. Ráðgjafarhópnum er ætlað að veita umboðsmanni barna ráðgjöf um réttindi og hagsmuni barna og ungmenna og vinnur meðal annars að skipulagningu Barnaþings sem haldið verður í þriðja sinn í Hörpu í Reykjavík í nóvember. Þinginu er ætlað að hvetja börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna þjóðfélagsumræðu. Börnin eru boðuð til þingsins með slembivali eftir úrtaki úr Þjóðskrá til að tryggja þátttöku fjölbreytts hóps barna frá öllu landinu. Forseti hefur áður flutt ávarp við setningarathöfn Barnaþings árið 2019 og árið 2022.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, fylgdi ráðgjafarhópnum á Bessastaði þar sem þau ræddu Barnaþingið við forseta og afhentu formlegt boðskort. Að því loknu stigu börnin nokkur dansspor fyrir utan Bessastaði. Fréttamenn KrakkaRÚV fylgdust með fundinum og verða Barnaþingi gerð skil með sjónvarpsumfjöllun.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar