Fréttapistill | 20. feb. 2023

Sjósund og íslensk tunga

Um nýliðna helgi, að loknu vetrarfríi vestanhafs, sótti ég tvo skemmtilega viðburði á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst flutti ég opnunarerindi á ráðstefnu um öndun, kulda, streitu og seiglu. Í máli mínu nefndi ég kosti sjósunds sem heilsubótar, í það minnsta út frá eigin reynslu. Einnig minnti ég á mikilvægi lýðheilsu og forvirkra aðgerða til þess að minnka álag í heilbrigðiskerfi okkar sem er löngu komið að þolmörkum.

Sjósund er hressandi, færir mann nær náttúrunni, reynir á líkama og viljastyrk en nokkrar reglur þarf að hafa í huga, helst þær að kunna sér hóf og synda aldrei einn fjarri ströndum. Að ráðstefnu lokinni skelltu mörg þeirra, sem hana sóttu, sér í sjóinn við Nauthólsvík og nutum við kulda og hita þar á sjó og landi.

Á laugardaginn var hlotnaðist mér líka sá heiður að afhenda Pétri Gunnarssyni Íslensku þýðingaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Hann snaraði Játningum Rousseaus af stakri snilld yfir á íslensku. Í ávarpi af því tilefni benti ég á nauðsyn þess að eiga öfluga og góða þýðendur sem gera okkur kleift að lesa bókmenntir og önnur verk utan úr heimi á íslensku. Þar að auki þurfum við að geta þýtt íslensk verk á önnur mál. Ég stóðst ekki mátið og notaði tækifærið líka til þess að kvarta undan þeim plagsið að gera ensku hærra undir höfði en íslensku hér og þar í samfélaginu.

Þessu er vel hægt að breyta. Í fluginu heim frá Chicago í Bandaríkjunum vorum við Íslendingarnir kannski innan við tíu í fullsetinni vél Icelandair. Samt vorum við fyrst ávörpuð á íslensku eins og vera ber og leyfði ég mér að spyrja bandarískan farþega nærri mér hvort þetta hefði truflað, að heyra fyrst skilaboð á því máli en ekki ensku. Hún virtist fyrst ekki skilja spurninguna en sagði svo að þetta væri nú sjálfsagt, væri flugfélagið ekki íslenskt? Svona eins og flugvöllurinn sem við lendum á, hugsaði ég svo með mér en lét það liggja milli hluta og óskaði henni góðrar dvalar á Íslandi.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar