Fréttapistill | 03. jan. 2022

Ný vinnuvika á nýju ári

Ný vinnuvika er hafin, á nýju ári. Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og ítreka þær óskir, sem ég bar fram í nýársávarpi, að árið 2022 verði okkur farsælt. „Syngjum lag, spilum spil, þá er gott að vera til,“ voru lokaorð ávarpsins að þessu sinni, fengin að láni úr lagi Mugisons, Stingum af, sem tekið var upp í nýrri útgáfu á Bessastöðum af þessu tilefni.

Ýmsir viðburðir jólavikunnar fóru fram með öðru sniði en venjulega á Bessastöðum. Ekki var unnt að halda ríkisráðsfund eins og venja er á gamlársdegi, þrír ráðherrar voru í einangrun eftir kórónuveirusmit. Ekki var heldur ráð að hafa hefðbundna móttöku fyrir forystufólk í samfélaginu á nýársdag.

Hin íslenska fálkaorða var að venju veitt á nýársdag, en nýir orðuhafar héldu hver fyrir sig til Bessastaða með föruneyti sínu í stað þess að ein athöfn væri haldin fyrir hópinn saman. Nú hefur líka sú breyting orðið að tillögu minni að orðuband við riddarakross og stórriddarakross orðunnar er hið sama, óháð kyni. Ég óska nýjum handhöfum fálkaorðunnar til hamingju með verðskuldaðan heiður.

Þá færi ég Fríðu Ísberg, skáldi og rithöfundi, heillaóskir. Núna um áramótin var tilkynnt að hún hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2021. Þetta eru menningarverðlaun sem hafa verið veitt árlega frá árinu 1981 og hefur forseti Íslands verið verndari verðlaunanna frá upphafi. ISAL álverið í Straumsvík hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá árinu 2000.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

  • Ragnhildur Gísladóttir, Andri Ólafsson, Jón Ólafsson og GDRN í hátíðarsal Bessastaða.
  • Nýir orðuhafar sem tóku við fálkaorðunni 1. janúar 2022.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar