Fréttapistill | 06. feb. 2023

Þreyjum þorrann saman

Um helgina var ég gestur á Hinsegin landsmóti ungmenna sem fram fór í Borgarfirði. Mótið sóttu krakkar hvaðanæva af landinu og ég naut þess að ræða við þau um mikilvægi fjölbreytni og umburðarlyndis í samfélaginu. Við erum á réttri leið en enn er verk að vinna eins og ýmsar frásagnir þátttakenda á landsmótinu staðfestu.

Landsmótið markaði lok annasamrar viku þar sem ég sótti ýmsa viðburði og tók á móti fjölda gesta. Þar má fyrsta telja Vjosa Osmani, forseta Kósovó, sem kom til fundar á Bessastöðum. Ísland viðurkenndi sjálfstæði Kósovó árið 2008 en þetta er í fyrsta sinn sem forseti landsins sækir okkur heim og var fróðlegt að ræða við Osmani um stöðu mála á Balkanskaga og víðar í Evrópu. Þá afhentu sendiherrar þriggja landa, Úrúgvæ, Tékklands og Srí Lanka, trúnaðarbréf sín á Bessastöðum í vikunni.

Í vikubyrjun naut ég þeirrar ánægju að afhenda Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands á Bessastöðum, og á föstudag afhenti ég verðlaun Skýs á UTmessunni í Hörpu, fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Síðast en ekki síst veitti ég nýsveinum og meisturum þeirra viðurkenningar á árlegri nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík á laugardag. Nýsköpun, iðnir og upplýsingatækni, allt eru þetta grundvallarþættir í að byggja hér öflugt samfélag.

Um þessar mundir fögnum við þorranum með súrmat og samveru. Sjálfur sótti ég tvö blót í vikunni, á Hrafnistu í Hafnarfirði og með nágrönnum okkar á Álftanesi, ásamt Elizu. Loks þakka ég aftur öllum þeim sem heimsóttu okkur í opnu húsi Safnanætur á Vetrarhátíð. Þannig þreyjum við þorrann saman á meðan birtir til, dag frá degi. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar