Fréttapistill | 22. maí 2023

Viðburðarík vika

Mér þykir vænt um að hafa gefist tækifæri í síðustu viku til að taka þátt í viðburðum á sviðum sem eru mér sérlega hugleikin. Á miðvikudaginn var, seinni degi leiðtogafundar Evrópuráðsins, náði ég að flytja ávarp við útskrift hjá Hringsjá í Reykjavík. Hringsjá er staður náms- og starfsendurhæfingar fyrir fólk á leið í skóla eða vinnu á ný eftir hlé vegna ýmissa áfalla. Þarna er frábært starf unnið, einstöku fólki og samfélaginu öllu til heilla.

Daginn eftir sótti ég hátíðarsýningu Leikhópsins Perlunnar á heimavelli hans í Borgarleikhúsinu. Þar mælti ég nokkur orð og hlotnaðist einnig sá heiður að afhenda Sigfúsi Sveinbirni Svanbergssyni viðurkenningarskjal. Fúsi hefur starfað með leikhópnum frá upphafi. Um kvöldið gekk ég svo á Úlfarsfell með góðum hópi á vegum Ferðafélags Íslands. Við létum slagveður ekki á okkur fá og nutum tónleika Helga Björnssonar, Sölku Sólar og Reiðmanna vindanna í hlíðum fjallsins. Í örstuttri ræðu minnti ég á nauðsyn forvirkra aðgerða á sviði lýðheilsu, með áherslu á hreyfingu og hollt líferni en aldrei með neikvæðum formerkjum og ætíð eftir vilja, áhuga og getu hvers og eins.

Leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík bar auðvitað hæst í nýliðinni viku. Samhliða honum var ánægjulegt að styrkja böndin við ýmis Evrópulönd á tvíhliða fundum með kollegum. Margt annað bar einnig til tíðinda eins og hér greinir:

Við hjónin tókum á móti ýmsum gestum á Bessastöðum. Má nefna nemendur Alþjóðlega jafnréttisskólans, félög kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og í Finnlandi, eldri borgara úr Keflavíkursókn og kvennakórinn Vox feminae. Þá átti Eliza hádegisverðarfund með forsetafrú Póllands á miðvikudag og um kvöldið buðum við forsetum Eistlands og Lettlands til kvöldverðar á Bessastöðum í lok leiðtogafundar. Um helgina sótti ég forsýningu sjónvarpsþáttar í þáttaröðinni Fólk eins og við, þar sem lýst er örlögum þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma og lenda á götunni.
Loks lá leið mín til Þingvalla þar sem ég flutti ávarp á opnun sýningar á ljósmyndum Gunnars G. Vigfússonar. Í hálfa öld hefur Gunnar tekið myndir í þágu embættis forseta Íslands og er fróðlegt að sjá úrval þeirra mynda í gestastofu þjóðgarðsins.

Um þessi embættisverk og fleiri má lesa á vefsíðunni www.forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

  • Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar